135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

19. mál
[13:55]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Já, hv. þm. Birkir Jón Jónsson fagnar því að við í Frjálslynda flokknum skulum ætla að styðja þetta. Ég get náttúrlega ekki talað fyrir allan Frjálslynda flokkinn, (Gripið fram í.) enda er hann stór flokkur. En ég tala fyrir hann að hluta og ég vil bara segja að frumvarpið er gott sem slíkt. En maður getur ekki annað en horft aðeins á þetta ferli sem hefur átt sér stað síðustu tólf ár. Þið hafið hreinlega verið á bremsunni í þessum málum eins og mörgum öðrum en svo komið þið núna eins og hvítvoðungar og hreinir af öllu og hafið aldrei verið á móti einu eða neinu og allt í einu eruð þið tilbúnir að gera allt fyrir allt og alla.

Þetta er auðvitað breyting sem hefur orðið og ég vildi að hún yrði á fleiri sviðum eins og varðandi fiskveiðistjórn og ýmislegt (Gripið fram í.) þess háttar. En kannski er ekki hægt að ætlast til þess. Þó hefur orðið veruleg breyting á afstöðu varðandi sameiginlegar auðlindir eins og orkuna í iðrum jarðar og annað þess háttar. Og vonandi farið þið nú að flokka fiskinn í sjónum með auðlindum.

Ég get alveg tekið undir það að þetta er af hinu góða fyrir námsmenn og ég styð þetta. Held að þetta sé af því góða í þjóðfélaginu til framtíðar litið og muni skila sér seinna. Það tekur einhvern tíma en menntun er auðvitað af því góða fyrir alla og ég mun styðja þetta. En það er sorglegt að horfa svo upp á það að núna eru samfylkingarmenn farnir að draga í land og farnir að stíga á bremsuna.