135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

19. mál
[13:59]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra. námsmanna sem gengur út á það að breyta hluta af námsláni í námsstyrk. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta afskaplega gott mál. Reyndar eru þetta ríkisútgjöld og ég er aldrei hrifinn af slíku en það er getið um það í greinargerðinni að meiningin sé að spara og það líst mér alltaf betur á.

Brottfall í skólum er óskaplega dýrt og það vantar í greinargerðina, finnst mér, hvað það kostar mikið að hafa einn nemanda eitt ár í háskóla eða framhaldsskóla. Mig minnir að það kosti um hálfa milljón að hafa einn nemanda í skóla auk þess sem vinnuframlag hans er fórnarkostnaður sem er miklu meiri. Næði þetta frumvarp þeim tilgangi að minnka brottfall yrði sparnaður ríkissjóðs meiri en kostnaðurinn en það er náttúrlega eitthvað sem hv. menntamálanefnd þarf að skoða.

Hv. þingmaður nefndi að menntun væri fjárfesting fyrir þjóðfélagið en hún er ekki síður fjárfesting fyrir nemandann og mér finnst skorta mikið á að íslenskir nemendur líti á námið sem fjárfestingu. Mér finnst reglur LÍN eiginlega vera í hina áttina vegna þess að fólk er verðlaunað fyrir að vinna með námi. Skerðingin er núna, að mér skilst eftir síðustu tölum, farin úr 12% niður í 10% ef menn vinna, þ.e. hún er nánast orðin lítil sem engin. Ég held að menn geti ekki stundað nám og unnið fulla vinnu með, ég held að það sé ekki möguleiki. Það er lítilsvirðing við það að námið sé fjárfesting sem eigi að taka eins og hverja aðra vinnu og menn eigi að klára eins hratt og hægt er. Þess vegna held ég að þetta sé mjög gott frumvarp sem hagrænn hvati til að lokka menn til að ljúka námi á réttum tíma. Svo mætti líka hafa refsingu sem fælist í því að ef menn ekki ljúka því á réttum tíma breytist ákveðinn hluti af láninu í lán með markaðsvöxtum svo maður tali ekki um ef menn hætta námi, þá ættu þeir að borga markaðsvexti á lánið því þá er forsenda lánsins, þ.e. sem fjárfesting, horfin og þá er engin ástæða til að niðurgreiða það ef menn ekki ljúka námi.

Ég tek undir að þetta er gott mál og ég er á móti því að menn dragi mál í dilka eftir því hvort stjórnarandstæðingar eða stjórnarþingmenn flytja þau. Mér þótti leiðinlegt að hlusta á umræðuna rétt áðan en ég styð þetta mál, sama hver flytur það. Ég vil reyndar að fleiri þingmannamál verði að lögum. Mér finnst þetta vera gott mál og það þarf að skoða það. Hv. menntamálanefnd þarf að fara í gegnum hvað það kostar og alveg sérstaklega hvað það sparar og ef sparnaðurinn er meiri en kostnaðurinn þá skal ég styðja það.