135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

19. mál
[14:02]
Hlusta

Róbert Marshall (Sf):

Herra forseti. Mig langaði bara til að benda hv. þm. Grétari Mar Jónssyni á þá staðreynd að það er enginn af þingmönnum Samfylkingarinnar í vörn í þessu máli, enda er þetta skrifað inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna verði endurskoðuð með það að markmiði að bæta kjör námsmanna enn frekar.“

Að sjálfsögðu verður málflutningur samfylkingarmanna í gegnum tíðina varðandi Lánasjóð íslenskra námsmanna tekinn með í þá endurskoðun. En ég vil taka undir með flokkssystur minni, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, og spyrja hvað hafi breyst vegna þess að það væri í sjálfu sér mjög fróðlegt að fá það svar. Eitthvað sem menn höfðu 12 ár til að vinna og gerðu ekkert í virðist á fimm mánuðum hafa breyst, eins og hv. þingmaður orðaði það, í brýnasta úrlausnarefni íslenskra námsmanna í dag. Það væri mjög fróðlegt að fá svar við því. Hvað gerðist á síðustu fimm mánuðum?