135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[14:04]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga um búnaðargjald, nr. 84/1997, með síðari breytingum, sem er að finna á þskj. 31. Með mér flytja þetta mál hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.

Frumvarp þetta hefur verið flutt í tvígang áður, á 132. og 133. löggjafarþingi, en varð ekki útrætt.

Tilgangur frumvarpsins er að fella niður skyldu bænda til að greiða búnaðargjald, sem er annars vegar félagsgjald til lögbundinna stéttarfélaga bænda, Bændasamtaka Íslands, ýmissa búnaðarsambanda og búgreinasambanda og hins vegar iðgjald, skylduiðgjald, til sérstaks tryggingasjóðs, Bjargráðasjóðs.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að Mannréttindadómstóll Evrópu lýsti því yfir 15. október sl., fyrir viku, að hann hefði tekið til umfjöllunar mál aðila gegn íslenska ríkinu vegna iðnaðarmálagjalds sem er mjög svipað gjald þar sem iðnfyrirtæki eru skylduð til að greiða til Félags íslenskra iðnrekenda. Mér sýnist að menn séu að átta sig á því hægt og rólega að hér er um að ræða ákveðið mannréttindamál sem snýr að stjórnarskránni í nokkrum atriðum.

Í fyrsta lagi er búnaðargjaldið núna 1,2% af heildartekjum bús óháð afkomu, þ.e. bændum sem eru með mjög lágar tekjur af búi sínu og jafnvel tap er gert að greiða þetta gjald. Aðrir bændur sem eru miklu betur settir greiða gjaldið líka en þeir eru betur settir til þess og þar með er jafnræðisreglan í rauninni brotin milli bænda. Ef þetta frumvarp verður að lögum er ekkert sem bannar bændum að greiða í sín stéttarfélög frekar en öðrum sem vilja vera í stéttarfélögum. En það sem er aðalmálið gegn þessu fyrirkomulagi með búnaðargjaldið er eftirfarandi sem stendur í 41. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir, með leyfi forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Lög sem kveða á um greiðslur úr ríkissjóði, önnur en fjárlög eða fjáraukalög, hljóta því að vera í andstöðu við þetta ákvæði stjórnarskrárinnar og því ógild.

Nú vill svo til, herra forseti, að í umræddum lögum um búnaðargjald stendur í 2. og 3. mgr. 6. gr. :

„Fjármálaráðherra stendur skil á gjaldinu mánaðarlega, þó aldrei lægri fjárhæð en nemur 6,67% af álagningu næstliðins árs.

Af óskiptum tekjum búnaðargjalds skulu 0,5% renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laga þessara.“

Þarna eru sem sagt fyrirmæli um það í almennum lögum að ákveðið gjald skuli greiða úr ríkissjóði, fjármálaráðherra skuli greiða ákveðið gjald úr ríkissjóði. Ég get ekki séð hvernig í ósköpunum þetta stenst stjórnarskrána, þar sem stendur að ekki megi skuldbinda ríkissjóð eða greiða fé úr ríkissjóði nema með fjárlögum eða fjáraukalögum. Þetta eru ekki fjárlög og ekki fjáraukalög enda gilda slík lög til eins árs. Þetta frumvarp um búnaðargjald gildir um aldur og ævi þar til Alþingi breytir því og þannig er búið að ráðstafa peningum framtíðarinnar án þess að Alþingi komi að þeirri fjárveitingu sérstaklega.

Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi að þeim lögum sem hér er lagt til að felld verði úr gildi segir, með leyfi forseta:

„Helstu kostir þessa nýja fyrirkomulags samkvæmt frumvarpinu eru að innheimtan verður einföld, fellur inn í hið opinbera skattkerfi og snertir eingöngu hagsmunaaðila. Gjaldstofninn liggur þegar fyrir hjá greiðendum og kostnaður þeirra er óverulegur.“

Hér er sagt beinum orðum að innheimtan falli inn í hið opinbera skattkerfi. Skattheimta ríkisins er sem sagt notuð til að innheimta gjöld fyrir félagasamtök einstaklinga með þeim ofurúrræðum gagnvart einstaklingum sem skattheimtu ríkisins eru gefin. Þetta innheimtuhlutverk ríkisins er undirstrikað í 1. og 3. mgr. 6. gr. laganna þar sem kemur fram að tekjum af búnaðargjaldi skuli skipt í samræmi við viðauka við lögin og að af óskiptum tekjum búnaðargjalds skuli 0,5% renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laganna.

Það getur varla verið hlutverk ríkisins að innheimta gjöld fyrir einstaklinga eða félög þeirra eins og 6. gr. gefur tilefni til að ætla.

Einnig fylgir með tafla þar sem eru hvorki meira né minna en 66 liðir sem fjármálaráðherra á að dreifa greiðslunum á. Það er ekki bara að hann eigi að greiða ákveðna upphæð heldur á hann að skipta henni á 66 liði sem renna til félagasamtaka, Bændasamtakanna o.fl., vegna nautgripaafurða, sauðfjárafurða o.s.frv. Það er þess vegna langt frá því að vera frjálst að Alþingi geti ákveðið þessi gjöld sjálft meðan þessi lög eru í gildi.

Það er fleira sem slík lagasetning hefur í för með sér. Með lögum um búnaðargjald er bóndi skyldaður til að greiða til félags, sem hann kann að vera andsnúinn og telur jafnvel að vinni gegn hagsmunum hans eða útbreiði sjónarmið og skoðanir sem eru andsnúnar sjónarmiðum hans og lífssýn. Það fær vart staðist að hann sé látinn greiða fyrir slíka starfsemi með hliðsjón af 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi. Til dæmis gæti hann verið þeirrar skoðunar að ekki eigi að leggja búnaðargjald á bændur og að landbúnaðarstefnan, sem að miklu leyti er mótuð af stéttarfélögum bænda, hafi beðið skipbrot fyrir löngu síðan og breytinga sé þörf til að landbúnaðurinn geti sýnt hvað í honum býr. Þetta gæti verið skoðun einhvers bónda. Hann er samt neyddur til að greiða stórfé, 120 þús. kr. af 10 millj. kr. ársveltu, til að fjármagna stefnu sem hann er eindregið á móti. Hann getur hins vegar ekki í sama mæli tjáð skoðanir sínar því hann hefur oft ekki þá afkomu af búi sínu að hann geti kostað til sambærilegum fjármunum í því skyni auk þess sem hagur hans skerðist sem nemur búnaðargjaldinu. Hann er sem sagt látinn borga fyrir áróður gegn sjálfum sér, gegn sinni eigin sannfæringu.

Í tjáningarfrelsinu felst að óheimilt er að kúga menn til að hafa tilteknar skoðanir eða losa sig við aðrar. Þrátt fyrir að skoðanafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar hafi almennt ekki mikla þýðingu hér á landi, sem betur fer, er því þveröfugt farið með ákvæði þessara laga. Skyldugreiðslur til félags sem greiðendur kunna að vera á móti í sjálfu sér brjóta í bága við hugmyndir um skoðanafrelsi.

Nú er ég búinn að nefna tvö atriði í stjórnarskránni sem hugsanlega eru brotin með þessum lögum og þá vil ég nefna félagafrelsi. Margs konar réttindi fylgja félagsaðild og einnig tækifæri til að kjósa stjórn og þar með hafa áhrif á ráðstöfun þess fjár sem bónda er gert að greiða til félagsins. Þannig er það óskynsamlegt fyrir hann að gerast ekki félagi en verða samt að greiða fullt gjald.

Við getum hugsað okkur að vildi einhver hópur bænda stofna félag til að gæta sameiginlegra hagsmuna sinna, t.d. berjast gegn því að verða að greiða búnaðargjald samkvæmt lögunum, væri þeim það fullkomlega heimilt samkvæmt stjórnarskrá. Er ekki undarlegt í því ljósi að þeim skuli með lögum vera gert að greiða gjald til félaga sem hugsanlega og líklega munu berjast gegn nýja félaginu þeirra? Hópnum yrði sem sagt gert að greiða herkostnað gegn eigin félagi og gegn eigin hagsmunum.

Síðan er spurning um friðhelgi einkalífsins, því að í 5. mgr. 5. gr. laganna um búnaðargjald segir svo, með leyfi forseta:

„Að lokinni álagningu ár hvert skal ríkisskattstjóri láta Bændasamtökum Íslands í té skrá um greiðendur búnaðargjalds eftir sveitarfélögum þar sem fram komi af hvaða búgreinum hver og einn hefur greitt. Skrána er samtökunum aðeins heimilt að nota til að sinna lögbundnum verkefnum sínum og þjónustu við bændur. Óheimilt er að veita öðrum aðgang að skránni. Einstakir greiðendur gjaldsins geta andmælt því við ríkisskattstjóra að nöfn þeirra verði birt í skránni, enda liggi til þess lögmætar ástæður eða sérstakar aðstæður að mati ríkisskattstjóra.“

Öll þessi gögn fara sjálfvirkt til Bændasamtakanna og það er spurning hvort það fái staðist ákvæði stjórnarskrár um persónufrelsi.

Ég ætla ekki að fara í sögu búnaðargjaldsins. Áður en það var sett á voru alls konar álögur lagðar á þvers og kruss og það er getið um þá harmasögu í greinargerð með frumvarpinu.

Ég ætla að ljúka ræðu minni með því að fjalla um Bjargráðasjóð. Um hann segir í 1. gr. laga um Bjargráðasjóð, nr. 146/1995, með leyfi forseta:

„Bjargráðasjóður er sjálfstæð stofnun, sameign ríkisins, sveitarfélaganna og Bændasamtaka Íslands.“

Sjóðurinn skiptist í tvær deildir sem tryggja annars vegar meiri háttar bein tjón af völdum náttúruhamfara á lausum og föstum munum sem tengjast landbúnaði, svo og grasbrest, og hins vegar tjón á búfé og afurðum þess, sem og tjón á garðávöxtum af völdum sjúkdóma, slysa og veðurs.

Tekjur Bjargráðasjóðs eru framlög allra sveitarfélaga í landinu, herra forseti, ég endurtek, tekjur Bjargráðasjóðs eru framlög allra sveitarfélaga í landinu, sem er árlegt fast gjald á hvern íbúa, 131,91 kr. fyrir árið 2007, framlag ríkisins, sem er ákveðið með fjárlögum, og búnaðargjaldið sem er mismunandi eftir starfsemi bænda, svo og vextir af eigin fé. Það er sem sagt greitt fyrir hvern einasta íbúa í landinu í Bjargráðasjóð, 131,91 kr.

Eigið fé sjóðsins í árslok 2006 var 586,9 millj. kr. Í greinargerð með frumvarpinu er tafla um afkomuna síðustu ár en þar sýnir sig að rekstrargjöld hafa verið um 30–50% af útgreiðslum þannig að ekki er reksturinn ódýr á þessu batteríi.

Þó að búnaðargjald verði aflagt sem slíkt getur Bjargráðasjóður starfað áfram um langt skeið miðað við eigið fé, en það svarar til um 12 ára útgreiðslna. Veittir styrkir svara einnig nokkurn veginn til framlaga ríkis og sveitarfélaga. Fjármagnstekjur geta staðið undir rekstrarkostnaði sem auðvitað mætti lækka. Bændur gætu einnig leitað eftir tryggingum á almennum markaði fyrir þeirri áhættu sem sjóðurinn mundi ekki geta staðið undir samkvæmt svokallaðri „stopp loss“-tryggingu. Hugsanlega mætti breyta Bjargráðasjóði í hlutafélag og selja hann til hagsbóta fyrir Lífeyrissjóð bænda eins og gert var við Lánasjóð landbúnaðarins og á eftir að gera við Hótel Sögu. Athygli vekur að sala á þeim sjóði, þ.e. Lánasjóði landbúnaðarins, hefur opnað fyrir samkeppni um lán til bænda á kjörum sem þeir hafa aldrei séð áður. Þegar Lánasjóður landbúnaðarins, sem ætlaður var bændum til hagsbóta, var seldur fengu þeir miklu betri lán. Það skyldi nú ekki vera að það eigi við um fleiri þau helsi sem lögð hafa verið á bændastéttina í landinu. Það ætti að sýna bændum að þeir geta notið frelsis á mörkuðum eins og aðrir landsmenn og ætti að hvetja þá til að losa um þá hlekki á landbúnaðinn sem enn njörva athafnakraft þeirra niður eins og búnaðargjaldið er dæmi um.

Að lokinni umræðu um frumvarpið legg ég til að því verði vísað til hv. landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar.