135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[14:18]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er árlegur viðburður að forustumenn Sjálfstæðisflokksins kynna stefnu flokksins í landbúnaðarmálum. Hv. þm. Pétur H. Blöndal fékk glæsilega prófkjörskosningu í Reykjavík. Reykvískir stuðningsmenn flokksins treysta honum til æðstu metorða innan flokksins og innan þingsins, og margt gerir hann vel svo að það er sjálfsagt verðskuldað. En þegar hv. þingmaður fer síðan að kynna stefnu Sjálfstæðisflokksins í landbúnaðarmálum held ég að bændur leggi við hlustir og velti fyrir sér: Á hvaða vegferð er Sjálfstæðisflokkurinn?

Það mál sem hér er flutt, og hv. þingmaður hefur mælt fyrir, leiðir í ljós að hið uppbyggða félagskerfi og samhjálp og samvinnuhugsjón í landbúnaði er hv. þingmanni þyrnir í augum. Ef þingmaðurinn hefði farið aðeins lengra í söguskýringunum hefði hann séð, og hann hefði átt að vita það, að einmitt á grundvelli öflugrar samvinnuhugsjónar og félagshyggju innan landbúnaðarins náðum við stórstígum framförum á síðustu öld. (PHB: Og hagur bænda verið góður.) Þeir hafa lagt sitt af mörkum, þeir hafa bara setið uppi með kolómögulega ríkisstjórn undir forustu Sjálfstæðisflokksins, það hefur verið þeirra höfuðvandi síðustu árin.

Upp hafa verið byggð mjög sterk samtök bænda — búnaðarfélög, nautgriparæktarfélög, félög sauðfjárbænda o.s.frv. — sem hafa verið styrkur þessum hlutfallslega litlu einingum í atvinnulífi þjóðarinnar. Það hefur verið styrkur bænda að geta unnið saman og staðið sameiginlega að baráttumálum, staðið sameiginlega að þróun sinnar atvinnugreinar, staðið sameiginlega í markaðsöflun o.s.frv. Hv. þingmaður telur það eitt það brýnasta í stefnu flokksins, og mælir þá vafalaust fyrir hönd síns flokks, sem einn af leiðtogum Sjálfstæðisflokksins í landbúnaðarmálum, að mæla fyrir því að höggva þetta niður.

Ég hélt að hv. þingmaður ætti að muna mikilvægi Bjargráðasjóðs en hann telur að hann sé orðinn óþarfur og það sé mjög ósanngjarnt að bændur og sveitarfélög greiði framlög í þann sjóð. Það má vel vera að finna megi eitthvert annað samtryggingar- og samhjálparkerfi í þeim efnum, en meðan við höfum ekki annað get ég ekki séð að það sé hið brýnasta mál að höggva niður samhjálparkerfi atvinnulífsins, einkum atvinnulífs í dreifbýli. Það er þar sem hv. þingmaður vill höggva niður.

Allt ber þetta að einum brunni. Þegar forustumenn Sjálfstæðisflokksins bera fram sín mál nú í haust þá er það í fyrsta lagi brennivínsmálið og svo er að höggva niður félagskerfi landbúnaðarins. Þetta tvennt telja þeir mikilvægast. Það má vel vera að menn telji sig vera kosna til þess, ég efast þó reyndar um það. En ég er ekki sammála þessum forgangsmálum Sjálfstæðisflokksins.

Hv. þingmaður víkur að sölu Lánasjóðs landbúnaðarins. Ég held að hv. þingmaður ætti frekar að kynna sér það mál, hvernig það hefur gengið og hver reynsla bænda hefur verið af því? Í staðinn fyrir að þróa Lánasjóð landbúnaðarins og láta hann hafa ákveðið hlutverk — m.a. í nýliðun í landbúnaði sem hann var gríðarlega mikilvægur fyrir á sínum tíma — var hann seldur, afhentur viðskiptabanka kvaðalaust. Ég fæ inn á mitt borð mörg dæmi þess að bændur sem vilja fjárfesta á jörðum sínum og áttu áður aðgang að Lánasjóði landbúnaðarins á félagslegum grunni — þar var fólki ekki mismunað eftir búsetu — eiga nú erfitt með að fá lán. Það hjálpar þeim lítið þó að þeir geti hugsanlega selt einhverjum auðmanni jörðina sína fyrir stórfé. Landsbankinn er ekki reiðubúinn að meta veðgildi hennar til þess að byggja á henni fjárhús eins og áður var. Lánamöguleikar margra bænda hafa skerst eftir söluna á Lánasjóði landbúnaðarins og jafnræðisstaða þeirra innbyrðis hefur skerst mjög verulega. Allt í einu eru komnir til sögunnar viðskiptabankar sem hugsa um það eitt að græða, fá arð af fjármagni sínu, samfélagsleg ábyrgð er ekki það sem þeir ganga fyrir.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal talar um frelsi. Jú, það er hægt að tala um frelsi án ábyrgðar. Frelsi án ábyrgðar er, að því er virðist, einkunnarorð talsmanna Sjálfstæðisflokksins í þessu máli svipað og við sjáum í stóra brennivínsmálinu þeirra.

Ég ætla svo sem ekki að hafa um þetta mörg orð en vil leggja áherslu á að hin samstillta félagslega uppbygging í landbúnaði meðal bænda og samvinnufólks í landinu hefur gert þetta samfélag svo sterkt sem það er í dag. Það er samhjálparhugsjónin, samábyrgðin og félagshyggjan, sem hefur stuðlað að því. Það vill hv. þingmaður brjóta niður. Ég er honum ekki sammála. Ef það er stefna Sjálfstæðisflokksins, að brýnast sé að brjóta niður félagsleg gildi, samhjálp og samábyrgð, er ég ekki sammála því.

Frumvarpið sem hv. þingmaður mælir fyrir miðar að því. Ég harma að þetta skuli vera sú stefna sem talsmenn Sjálfstæðisflokksins leggja fram varðandi landbúnaðarmál, að þetta skuli vera þeirra fyrsta mál hvað það varðar. Ég lýsi yfir fullkominni andstöðu við frumvarp hv. þingmanns.