135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[14:26]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kitlar óneitanlega hégómagirnd mína að vera kallaður forustumaður sjálfstæðismanna. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það. (JBjarn: Það eru nú kjósendur sem gera það.) Hann spyr á hvaða vegferð Sjálfstæðisflokkurinn sé. Ég þarf að minna hann á það enn einu sinni að sérhver þingmaður er bara trúr sannfæringu sinni. Það er ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem flytur þetta mál heldur ég og tveir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Hv. þingmaður talar um sterka félagslega stöðu bænda. Ég hef ekki heyrt annað en að bændasamfélagið sé afskaplega illa statt og hafi verið það í áratugi. Ég kenni um öllu því helsi sem á þá atvinnugrein er lagt.

Mig langar að bera fram spurningu til hans, af því að hann kom ekkert inn á það mál. Meginrökin fyrir þessu máli eru þau að um er að ræða fjárveitingu úr ríkissjóði. Hv. þingmaður sat um árabil í fjárveitinganefnd og situr enn og ætti að vita að Alþingi eitt má ákveða fjárveitingar með fjárlögum og getur ekki gert það með almennum lögum. Þetta ætti þingmaðurinn að vita. Ég vil því gjarnan spyrja hann: Hvernig getur hann varið það fyrir sjálfum sér og öðrum — hann hefur svarið eið að stjórnarskránni — að í einföldum lögum, almennum lögum, sé getið um fjárútlát sem fjármálaráðherra eigi að greiða þó að stjórnarskráin segi að ekki megi greiða peninga úr ríkissjóði nema með fjárlögum eða fjáraukalögum? Hvernig ætlar hv. þingmaður að verja það fyrir sjálfum sér, hvernig ætlar hann að segja að þetta sé hægt?

Hv. þingmaður kom heldur ekkert inn á það sem ég nefndi um félagafrelsið og tjáningarfrelsið o.s.frv. Hann nefndi það ekki einu orði. Hann talaði einungis um styrk Bændasamtakanna sem er því miður vanmáttur bændanna sjálfra.