135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[14:28]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir þau orð hv. þingmanns að félagslegur styrkur og staða bændastéttarinnar þyrfti að vera betri. Ég tel hins vegar ekki að leiðin til þess að bæta hana sé að brjóta bændur niður félagslega. Þar greinir okkur á. Ég tel þvert á móti að það eigi að gefa bændum tækifæri til að styrkja sig félagslega. Þeir hafa verið svo óheppnir að sitja uppi með ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins í 20 ár og við þekkjum stefnu þess flokks eins og hún birtist í frumvarpi hv. þingmanns.

Ég er sammála hv. þingmanni í því að ekki á að inna af hendi neinar greiðslur úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum. Ákvæði um mótframlag ríkisins í þetta er líka háð fjárlögum hverju sinni og er tilgreint þar. Þetta er tilgreint í fjárlögum á hverju ári. Mörg dæmi eru um að sérlög — tökum eyðingu refa og minka sem dæmi en þar er kveðið á um að inna skuli af hendi svo og svo hátt gjald eða hluta af kostnaði úr ríkissjóði á móti sveitarfélögum. Ríkissjóður hefur ekki staðið við það vegna þess að fjárlög eru þessum sérlögum æðri. Það er ekki gott en engu að síður er þetta nú svo að í fjárlögum hverju sinni er framlag ríkisins í Bjargráðasjóð tilgreint. Það er eins og með önnur lög og reglugerðir, fjárlög ákvarða þá upphæð endanlega.