135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[14:30]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að mörg dæmi væru um markaða tekjustofna. Á það hef ég einmitt lagt áherslu. Ég hef flutt frumvarp um að afnema iðnaðarmálagjaldið, sem er svipað. Ég ræði á eftir um skyldugreiðslur opinberra starfsmanna til stéttarfélaga, hvort sem þeir eru í félögunum eða ekki. Það er á dagskrá á eftir. Ég tek þannig á þessum dæmum hverju á fætur öðru til að benda á að þetta fái ekki staðist. Markaðir tekjustofnar fá ekki staðist samkvæmt stjórnarskránni.

Ég vil aftur spyrja hv. þingmann. Hvernig fer það saman í hans huga að í stjórnarskránni, sem hann hefur svarið eið að, segi í 41. gr.:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Svo stendur í þessum umræddu lögum sem hér er lagt til að verði felld niður, í 2. og 3. mgr. 6. gr. um búnaðargjald:

„Fjármálaráðherra stendur skil á gjaldinu mánaðarlega, þó aldrei lægri fjárhæð en nemur 6,67% af álagningu næstliðins árs.

Af óskiptum tekjum búnaðargjalds skulu 0,5% renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laga þessara.“

Hvernig í ósköpunum fer þetta saman? Lögin segja að það eigi að greiða á hverju einasta ári um alla framtíð og stjórnarskráin segir að það megi ekki gera nema með fjárlögum eða fjáraukalögum? Þetta eru ekki fjárlög. Þetta eru ekki fjáraukalög. Ég vil biðja hv. þingmann að taka sérstaklega þennan punkt fyrir.