135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[14:41]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er fróðlegt að verða vitni að því hér í sölum Alþingis að Ellert B. Schram, hv. þingmaður Samfylkingarinnar, sé einnig talsmaður þess að brjóta niður stéttarfélögin í landinu. Þetta er sú útþvældasta og versta röksemd frjálshyggjunnar á móti stéttarfélögum og á móti því að fólk geti staðið saman um kjör sín, að frelsið til að velja sér félög verði að vera algert.

Ég kalla þá eftir því hvort slíkt frelsi eigi einnig að ríkja hjá almennum launamönnum og hvort það sé stefna Samfylkingarinnar í dag. Verður þá kannski sumum órótt sem áður stóðu að forvera þess flokks, Alþýðuflokknum sáluga, ef Samfylkingin er komin inn á það forað frjálshyggjunnar.