135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[14:48]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að biðjast afsökunar. Það er stórmannlegt.

Ég vil geta þess að í 38. gr. stjórnarskrárinnar stendur:

„Rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana hafa alþingismenn og ráðherrar.“

Alþingi er þannig uppbyggt að það eru alþingismenn, hver og einn, sem eiga að flytja tillögur og frumvörp. Það eru ekki flokkar, það er ekki ríkisstjórnin, það eru alþingismenn sem flytja frumvörp og tillögur.

Ég sé því ekkert að því að þrír hv. þingmenn flytji frumvarp. Það þarf ekki endilega að vera stefna eins flokks eða annars. Þingmenn greiða atkvæði um frumvarpið þegar þar að kemur, vonandi háð sannfæringu sinni. Ég flyt frumvarpið sem þingmaður og hef rétt til þess. Það er hvorki stjórnarfrumvarp né á móti stefnu stjórnarinnar. Það hefur ekki nokkurn skapaðan hlut að gera með ríkisstjórnina, sem vill svo til að ég styð.