135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[14:49]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég finn mig knúinn til að taka þátt í þessari umræðu vegna orða hv. þm. Bjarna Harðarsonar. Ég vil taka það skýrt fram, vegna þess að reynt hefur verið að draga upp þá mynd, að það er algjörlega fráleitt að Samfylkingin styðji ekki verkalýðshreyfinguna. Samfylkingin mun áfram standa vörð um verkalýðshreyfinguna eins og hingað til. Það er rétt hjá hv. þingmanni að Samfylkingin á rætur sínar í verkalýðshreyfingunni sem má rekja allt til ársins 1916. Þær rætur verða ekki rifnar upp, svo mikið er víst, hv. þingmaður getur andað rólega yfir því.

Mér þótti ekki síður knýjandi að koma hingað upp og benda á að hv. þingmaður gaf það eiginlega í skyn að stjórnarskráin gilti ekki um allt land. Hv. þingmaður sagði að tilteknir þingmenn sem flyttu þetta mál gætu einbeitt sér að stjórnarskrárbrotum sem ættu sér stað á suðvesturhorninu en létu önnur mál í friði sem vörðuðu eitthvað sem þeir ekki þekktu til.

Nú vil ég ítreka að ég tel afar mikilvægt að þingmenn standi vörð um stjórnarskrána, að allir hafi rétt gagnvart stjórnarskránni og að sá réttur sé varinn sama hvaðan menn koma af landinu. Ég trúi því að hv. þingmaður hafi einnig átt við það þó að honum hafi mælst svo óhönduglega í ræðustólnum.