135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[14:57]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Það stendur upp á mig að svara fyrirspurn frá hv. þm. Bjarna Harðarsyni. Ég tel mig upp úr því vaxinn að standa í þrasi og útúrsnúningaumræðu eins og hv. þingmaður hafði því miður uppi. Ég tók til máls áðan og hóf ræðu mína á því að taka fram að ég væri ekki að lýsa yfir stuðningi við frumvarpið sem hér hefur verið lagt fram. Ég vildi hins vegar að gefnu tilefni mótmæla því að frumvarpið væri endilega aðför að bændastéttinni vegna þess að mörg skynsamleg rök voru flutt fyrir því að þetta mál ætti rétt á sér. Almennt er ég þeirrar skoðunar að ekki þurfi að skylda fólk til að standa saman í eigin samtökum.

Ef það er lífsnauðsynlegt, eins og hv. þingmaður tók til orða, að bændur standi saman í samtökum sínum finna þeir sjálfsagt fyrir því sjálfir og borga sjálfviljugir. Það þarf ekki að taka það sérstaklega fram í lögum að þeir séu skyldugir til að borga, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þetta er sjónarmið mitt og það gildir hvort sem í hlut eiga bændur, verkamenn eða, ef út í það er farið, þeir sem eiga aðild að íþróttafélögum. Það gildir almennt í samfélaginu að fólk gengur sjálfviljugt í samtök, hagsmunasamtök eða áhugasamtök, og greiðir þá sína félagsaðild. Ég tala hér ekki fyrir munn Samfylkingarinnar, ég tala alltaf í eintölu, ég tala ekki í fleirtölu. Ég er ekki með neinar yfirlýsingar fyrir hönd eins eða neins flokks þegar ég segi að ég styð frelsi og mannréttindi. Þetta mál snýst að mörgu leyti um þau tvö grundvallaratriði.