135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[15:03]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Umræðan er vissulega komin örlítið út fyrir búnaðargjaldið en hún er afskaplega athyglisverð því hún snýst um hvort hv. þm. Ellert B. Schram er andvígur skylduaðild að stéttarfélögum. Síðasta ræða hans skilur mig eiginlega enn meira eftir í lausu lofti um það. Ég tel þetta skipta máli. Ég tel að verkalýðshreyfingin muni horfa til þess ef það er orðið þannig.

Hv. þingmaður vék að því að hér ættu að ríkja nútímaleg sjónarmið. Ef það eru sjónarmið þingmanna Samfylkingarinnar á því herrans ári 2007, nútímasjónarmiðin, að skylduaðild að stéttarfélögum sé úrelt þá eru það mikil tíðindi. Það eru mikil tíðindi fyrir verkalýðshreyfinguna. (Gripið fram í.) Það sem hv. þingmaður hefur sagt í þessu púlti er að það eigi ekki að vera skylduaðild að félögum sem þessum. Það eigi ekki að skylda menn til að borga fé til þeirra. En félagsaðild í öllum félögum sem þessum hefur ævinlega byggst á greiðslu félagsgjalda sem hafa verið tekin af launum verkamanna.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er umdeilanlegt kerfi. En menn hafa verið sammála um það mjög lengi. Menn hafa verið sammála um það mannsöldrum saman, á vinstri kanti stjórnmálanna og margir á þeim hægri, að þetta sé nauðsynlegt til að fátækt fólk geti varið rétt sinn. Þegar hv. þm. Ellert B. Schram, sem er nú eldri en tvævetur, kemur hér upp mjög undrandi og segir: Það eru mjög athyglisverð sjónarmið að (Forseti hringir.) að hér sé talað á móti félagafrelsinu og við skulum hugsa það. Þá er mér brugðið, frú forseti.