135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[15:06]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vildi bæta nokkrum orðum við þessa umræðu sem lenti svolítið inni á villigötum að mínu mati. Kannski er það eðlilegt miðað við framsögu flutningsmanns sem beindi orðum sínum nokkuð mikið að málefnum landbúnaðarins en í raun er hér um iðnaðarmálagjald að ræða. Sem fyrrverandi iðnaðarráðherra þekki ég alveg þessi sjónarmið sem snúast um að hv. þingmaður og fleiri hv. þingmenn eru andvígir því og telja það orka tvímælis að ríkið innheimti fyrir iðnaðinn félagsgjöld og það sama gildi þá um landbúnaðinn. Meira að segja er einnig hægt að nefna Fiskiræktarsjóð í þessu sambandi líka.

Þetta hefur verið til umfjöllunar hjá Hæstarétti. Hann komist að þeirri niðurstöðu að þetta geti gengið með þeim hætti sem það hefur verið gert. En ég ber virðingu fyrir þeim sjónarmiðum hv. þm. Péturs Blöndal, að telja þetta orka tvímælis. Vel má vera að þetta verði tekið frekar fyrir hjá alþjóðlegum dómstólum. Ef ég hef skilið það rétt er ekki útilokað að það verði gert. En þetta er aðalatriði málsins.

Ég get líka greint frá því að fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, hafði nokkrar efasemdir um að réttlætanlegt væri að gera þetta með þessum hætti. Í hans málflutningi beindust spjótin eingöngu að Samtökum iðnaðarins. Í hans tíð var skipaður starfshópur sem átti að fara ofan í þessi mál frá öllum hliðum. En ég hef grun um að sá starfshópur hafi ekki starfað mikið og það liggi ekki mikið eftir hann.

En þetta er grundvallaratriði þessa máls, hvort ríkið á að standa í þessari innheimtu, sem vissulega er mjög þægilegt fyrir þessi félagasamtök frekar en að þurfa að innheimta sjálf iðgjöld af félagsmönnum sínum. Það er skiljanlegt að þau geri það með þessum hætti meðan þeim er stætt á því. Það sýnist mér að þeim sé nema eitthvað nýtt komi frá dómstólum í þeim efnum.

Ég tek fram að ég styð ekki þetta frumvarp og hef aldrei gert það. Engu að síður get ég alveg skilið hv. þingmenn að hafa þessa skoðun, að þeir telji þetta á mörkum þess að standast ákvæði stjórnarskrár.