135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

verðsamráð á matvörumarkaði.

[10:35]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Fréttirnar sem við heyrðum í gær eru í eðli sínu alvarlegar og það skiptir miklu máli að réttir eftirlitsaðilar bregðist við með réttum hætti. Það vill svo til að hæstv. viðskiptaráðherra er við skyldustörf erlendis en ég get upplýst að viðskiptanefnd þingsins mun heimsækja Samkeppniseftirlitið í fyrramálið og þetta mál mun án efa bera á góma á þeim fundi.

Við sjáum að öflugt samkeppniseftirlit er grunnurinn að þeim leikreglum sem við viljum sjá í viðskiptalífinu. Hæstiréttur Bandaríkjanna kallaði samkeppnislögin stjórnarskrá atvinnulífsins og það skiptir miklu máli að enginn vafi leiki á því að menn virði þau.

Hv. þm. Atli Gíslason beindi áskorun og spurningu til ríkisstjórnarinnar: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Hann kvartaði yfir fjárskorti í þessum málaflokki. Mig langar að upplýsa að 50% aukning er í fjárveitingum til Samkeppniseftirlitsins á tveimur árum. Með því sýnir ríkisstjórnin í verki að hún styður neytendamál og styður Samkeppniseftirlitið í sínu mikilvæga verkefni. Ríkisstjórnin hefur sett neytendamálin á oddinn. Verið er að skoða margs konar gjöld sem lögð eru á neytendur. Verið er að boða endurskoðun á vörugjöldum og tollum. Ríkisstjórnin er mjög neytendavæn og sýnir í verki að hún tekur þetta hlutverk sitt alvarlega.

Mig langar að lokum að minnast á að engar sannanir eru fyrir því að eitthvað óeðlilegt hafi átt sér stað varðandi þetta tiltekna mál. Það skiptir máli fyrir alla aðila að málið verði skoðað svo að hægt sé að eyða þeirri tortryggni og þeim vafa sem fréttir gærdagsins hafa augljóslega vakið.