135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

verðsamráð á matvörumarkaði.

[10:37]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Viðskipti og viðskiptalíf byggjast á trausti, sanngirni og heiðarleika. Það er ekki hægt að reka viðskiptalíf án þess að menn byggi á trausti. Fréttir gærdagsins hreyfa allverulega við því trausti. Þetta voru skelfilegar fréttir. Ef um er að ræða, og þá segi ég ef um er að ræða, samráð milli þessara stóru keðja er það aðför að neytendum og þarf að skoða alveg sérstaklega. Það er mikið brot á samkeppnislögum ef um samráð er að ræða.

Svo er það hinn endinn, að hægt sé að breyta verði frá því að maður tekur vöru úr hillu og þangað til maður kemur að kassa, sem þarf að skoða sérstaklega. Það er með ólíkindum ef verð á vöru getur breyst frá því hún er tekin úr hillunni þar til hún er lögð á kassann. Það er með ólíkindum ef verðið breytist eftir því hvort viðskiptavinur er húsmóðir eða fréttamaður. Það er verðugt verkefni fyrir talsmann neytenda og Neytendastofu að kanna það mál til hlítar, hvort verið sé að brjóta lög. En ég undirstrika að enn eru engar sannanir í málinu en fréttirnar gefa tilefni til að mjög nákvæmlega verði skoðað hvað um er að ræða.