135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[11:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið hér fram. Það er tvímælalaust að mestu leyti eða að öllu leyti til bóta frá gildandi löggjöf. En það er ekki þar með sagt að ekki hefði mátt ganga lengra í ákveðnum tilvikum. Það er okkar skoðun í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að í vissum tilvikum sé þetta frumvarp of veikt og það eru vonbrigði að ekki skuli tekið með afdráttarlausari hætti á ákveðnum hlutum, sérstaklega í ljósi þess að gildandi löggjöf og framkvæmd hennar undanfarin 10–12 ár hefur alls ekki skilað þeim árangri sem til stóð og vonir voru bundnar við. Í raun hefur enginn árangur náðst hvað varðar eitt alvarlegasta brotið á jafnréttislögum sem er hinn kynbundni launamunur síðastliðin 12 ár. Ítarlegar skýrslur frá 1995 og svo aftur frá síðasta ári sýna að kynbundinn launamunur hefur ekki minnkað, ef eitthvað er, frekar aukist.

Varðandi orðaskiptin sem urðu áðan og þá afstöðu hv. þm. Péturs Blöndal að hann hafi ekki trú á boðum og bönnum og að þau leysi ekki þennan vanda þá má hv. þingmaður hafa þá skoðun. Hann er frjáls að því. En það tekur ekki í burtu spurninguna um það: Viljum við ekki að landslög banni mannréttindabrot? Á það ekki að vera þannig? Jafnvel þó erfitt geti reynst að ná því fram og framkvæma það að fullu. Eða hvernig sjá menn löggjöfina fyrir sér? Sjá menn fyrir sér að það sem ekki er örugglega hægt að tryggja í reynd hverfi út úr henni? Jafnvel þó það væri í sjálfu sér rétt að það stæði þar. Viljum við ekki að íslensk löggjöf endurspegli draumsýn okkar um gott og réttlátt samfélag sem við eigum, jafnvel þó að einhverjir misbrestir séu á því að það náist fram? Jú, ég held það. Ég tel að þessi röksemdafærsla falli algerlega um sjálfa sig ef hún er sett í það samhengi að þetta er mannréttindalöggjöf og við getum ekki, viljum ekki og ætlum ekki að þola vísvitandi og gróf brot á mannréttindum í landinu og þar með talið ekki að mönnum sé mismunað á grundvelli kynferðis.

Þau ákvæði sem ég vil gera lítillega að umræðuefni við 1. umr., er þá aðeins stiklað á nokkrum atriðum, varða veikleika frumvarpsins sem við viljum vekja athygli á og gagnrýna í umfjöllun málsins.

Þar tek ég fyrst fyrir ákvæðið um launaleynd. Ég óttast að þessi frágangur málsins þar sem hnýtt er aftan í 19. gr. um launajafnrétti, að starfsmönnum skuli ávallt vera heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósi svo. Síðan á væntanlega að byggja á 30. gr. sem bannar afsal á réttindum samkvæmt lögunum til að tryggja að um annað megi ekki semja í ráðningarsamningum o.s.frv.

En þetta er sett í það samhengi að starfsmaðurinn er sjálfur látinn vera í þeirri aðstöðu að taka af skarið gagnvart vinnuveitanda sínum um að hann vilji upplýsingarnar fram.

Er þá ekki strax kominn mikill veikleiki í umbúnað málsins? Er þetta í sjálfu sér endilega svo mikil framför frá því sem er að óbreyttu? Hefði ekki þarna þurft að vera fortakslaust ákvæði um að launaupplýsingar skuli vera opinberar og aðgengilegar? Er þetta ekki hálfgerður hálfvelgjufrágangur á málinu? Er þetta ekki bara annaðhvort að við bönnum launaleynd eða ekki?

Ég hefði að minnsta kosti talið betra að hafa ákvæðin ítarlegri og útfærðari, hafa pósitíft bannákvæði inni í greininni sjálfri um að með öllu sé óheimilt að takmarka á nokkurn hátt rétt launamanns að þessu leyti og setja hann í aðstæður sem á einhvern hátt gætu talist hindra að hann veiti þessar upplýsingar. Ég held að þetta sé eitt af því sem skoða þurfi mjög rækilega.

Allar kannanir og vísbendingar hníga í sömu átt hvað það varðar að langöflugasta tækið í baráttunni gegn kynbundnum launamun séu félagslegir gagnsæir kjarasamningar þar sem allt er uppi á borðinu. Þetta sýna ítarlegar evrópskar rannsóknir, t.d. stór sameiginleg evrópsk rannsókn frá 2002 sem dr. Þorgerður Einarsdóttir sá um fyrir Íslands hönd. Hún sýndi m.a. það sem er nokkuð ljóst og fleiri kannanir hafa gefið í skyn að það er munur á almenna vinnumarkaðinum og hinum opinbera, almenna vinnumarkaðinum í óhag. Þar virðist kynbundinn launamunur meiri og hann er í beinu samhengi við að launakjörin eru gagnsærri á hinum opinbera vinnumarkaði og minna um einstaklingsbundin réttindi utan kjarasamninga.

Þetta á að vera hafið yfir deilur. Þetta liggur svo rækilega fyrir. Þess vegna er augljóst að ef menn vilja taka á í þessum efnum þá þarf launaleyndina burt. Þá þurfa launakjör, hin umsömdu almennu launakjör að vera uppi á borðunum og öllum aðgengileg.

Þetta ákvæði verður að skoða í samhengi við það næsta sem ég ætla að nefna, þ.e. stöðu Jafnréttisstofu. Þar verð ég að segja að ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég skoðaði frumvarpið sem nú er flutt af ríkisstjórn og bar saman við tillögur starfshópsins frá því í mars síðastliðnum, svo ekki sé talað um þau frumvörp og tillögur sem við þingmenn Vinstri grænna höfum flutt um þetta efni á undanförnum árum. Ég tel að staða Jafnréttisstofu sé alls ekki nógu sterk eins og um hana er búið í þessu frumvarpi. Mér sýnist því miður að orðið hafi afturför hvað varðar stjórnarfrumvarpið nú frá tillögum starfshópsins á útmánuðum. Það er þá sjálfsagt vegna þess, eins og hæstv. ráðherra kom hér inn á, að þetta frumvarp er niðurstaða málamiðlana eða samkomulags stjórnarflokkanna. Þá það, þá skulum við bara ræða það eins og það er.

Það er ekkert leyndarmál og ekkert feimnismál. Þar hefur sjálfsagt verið áherslumunur en þarna sýnst mér því miður hæstv. félagsmálaráðherra hafa orðið að sætta sig við þó nokkurn afslátt varðandi stöðu Jafnréttisstofu og reyndar líka að einhverju leyti í launaleyndarákvæðinu. Það vekur athygli að þar er óbreyttur stjórnarsáttmálinn tekinn inn í lagatextann, ef ég hef tekið rétt eftir. Það er spurning hversu heppilegt lagamál pólitísk samsuða í stjórnarsáttmála er endilega, þetta að tryggður verði réttur launafólks til að skýra frá launakjörum sínum, ef það svo kýs, sem hnýtt er í að aftan. Kannski hefur þar verið höggvið á hnútinn þegar menn sátu yfir þessu, hvort sem það var á Þingvöllum eða einhvers staðar annars staðar að bæta þarna við þessu „ef það svo kýs“.

Þegar kemur að Jafnréttisstofu höfum við í frumvörpum okkar á undanförnum þingum, ég vitna t.d. í 620. mál á 131. löggjafarþingi, lagt til að Jafnréttisstofa fengi mjög sterka stöðu og sambærilega við, eins og hv. þm. Atli Gíslason kom inn á, skattayfirvöld, samkeppnisyfirvöld, Fjármálaeftirlitið eða aðra slíka aðila og að Jafnréttisstofa hafi ótvíræðan rétt til að taka sjálfstætt frumkvæði í málum og geti beitt sér með sambærilegum hætti og þeir aðilar geta í dag, sjálfstætt, óháð og að eigin frumkvæði þar sem ástæða er til að ætla að pottur sé brotinn. Að þessu leyti er ekki nógu vel gengið frá stöðu Jafnréttisstofu í frumvarpinu.

Í frumvarpi okkar frá 131. löggjafarþingi stóð, með leyfi forseta, um upplýsingaskyldu:

„Jafnréttisstofa getur krafið opinberar stofnanir, sveitarfélög, atvinnurekendur og félagasamtök um allar almennar og sértækar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna verkefna hennar og athugunar á einstökum málum.“

Með öðrum orðum: Það er alveg skýrt að Jafnréttisstofa getur gengið að öllum slíkum upplýsingum sem að gagni mega verða í fyrirtækjunum og þarf engan að spyrja leyfis í þeim efnum. Í frumvarpi starfshópsins frá 13. mars er þetta nánast eins orðað. Kannski hefur það átt sinn þátt í að fulltrúi þingflokks vinstri grænna í starfshópnum var Valgerður H. Bjarnadóttir, fyrrverandi framkvæmdastýra Jafnréttisstofu og varamaður hennar, Atli nokkur Gíslason, hæstaréttarlögmaður. Hvað sem því líður stendur þar:

„Jafnréttisstofa getur krafið einstök fyrirtæki, opinberar stofnanir, félagasamtök og aðra þá sem upplýst geta um mál um allar upplýsingar og öll gögn sem nauðsynleg þykja vegna sérstakra verkefna stofunnar og athugunar hennar á einstökum málum.“

Svo kemur að stjórnarfrumvarpinu. Hvernig er þetta þá orðið? Jú, þar stendur:

„Stofnunum, fyrirtækjum og félagasamtökum er skylt að veita Jafnréttisstofu hvers konar almennar upplýsingar sem nauðsynlegar eru starfsemi hennar.“

Svo kemur:

„Hafi Jafnréttisstofa rökstuddan grun um að stofnun, fyrirtæki eða félagasamtök hafi brotið gegn lögum þessum er hlutaðeigandi stofnun, fyrirtæki eða félagasamtökum skylt að afhenda Jafnréttisstofu hvers konar upplýsingar og gögn …“ — þá er það komið. En eingöngu ef Jafnréttisstofa hefur rökstuddan grun um lagabrot.

Hvernig öðlast Jafnréttisstofa hinn rökstudda grun ef hún má ekki ganga að gögnum í fyrirtækjunum og hefur eingöngu lögvarinn rétt til að fá almenn gögn, almennar upplýsingar? Hvað eru almennar upplýsingar? Það er auðvitað það sem snýr að almennum ráðningarkjörum, almennum launamálum í fyrirtækinu en ekki sértækum upplýsingum, ekki upplýsingum um launakjör einstakra starfsmanna o.s.frv. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að túlka þetta þannig. Þá verð ég að segja að því miður er miklu veikari umbúnaður um stofnunina en við hefðum kosið, afturför frá tillögum starfshópsins og langt í frá að vera sú staða sem við höfum barist fyrir og Jafnréttisstofa fengið í formi frumvarpsflutnings á undangengnum árum.

Við þetta bætist annað atriði sem ég vil líka nefna. Það er spurningin um hvort Jafnréttisstofa á að geta fylgt prófmálum eftir til dómstóla. Mér sýnist hún ekki hafa þá stöðu samkvæmt stjórnarfrumvarpinu en það hafði hún samkvæmt tillögum starfshópsins frá því í vor því síðasta málsgrein 4. gr. í þeim frumvarpsdrögum hljóðuðu svo, með leyfi forseta:

„Þegar sérstaklega stendur á og ætla má að úrskurður dómstóla geti haft víðtæk áhrif í átt til jafnréttis eða hagsmunir kæranda eru metnir þess eðlis að mikilvægt þykir að fá úrlausn dómstóla getur Jafnréttisstofa höfðað mál til viðurkenningar á rétti kæranda … Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um skilyrði fyrir málshöfðunarheimild Jafnréttisstofu.“

Þetta sýnist mér vera farið út úr stjórnarfrumvarpinu og þó að þar séu mörg ágæt ákvæði, t.d. um gjafsóknina og vissulega sé framför í þeim dagsektarákvæðum og bindandi frágangi á úrskurðum sem frumvarpið gerir ráð fyrir þá eru þeir veikleikar þar á að þó að úrskurðirnir og dagsektirnar séu aðfararhæfar þá upphefur kæra til félagsmálaráðherra eða málshöfðun fyrir dómstólum það. Menn eiga þá útleið að hunsa niðurstöður kærunefndar og þvæla málunum með málskoti til ráðherra og síðan til dómstóla, jafnvel árum saman og komast þannig hjá dagsektum og í raun refsiákvæðum laganna. Þannig er augljóst að jafnvel stór og þýðingarmikil prófmál geta lent í hrakningum. Það er langur vegur frá þeirri beinu leið þeirra til fullnustu sem möguleikar Jafnréttisstofu á að fylgja málunum eftir fyrir dómstóla hefðu falið í sér.

Að sjálfsögðu er ljóst að það hefði eingöngu átt við um prófmál og mikilvæg mál, sem hefði sérstakt gildi að fengju úrlausn fyrir dómstólum. En að þessu leyti finnst mér málið þurfa betri skoðunar við og ég vona að það standi til boða í umfjöllun Alþingis að lagfæra frumvarpið að þessu leyti. Ef skýr þingmeirihluti er fyrir því að hafa það afdráttarlausara en þessi málamiðlun stjórnarflokkanna er þá verður vonandi látið á það reyna, af okkar hálfu með breytingartillögum ef ekki vill betur til. Ánægjulegast hefði verið að þeir íhaldsmenn sem þverskallast við í þessu máli hefðu játað sinn minni hluta í því, gefist upp og fallist á að hér yrði afgreidd virkilega róttæk og skelegg jafnréttislöggjöf sem ég held að sé þingmeirihluti fyrir ef út í það er farið.

Ég vil að lokum bara nefna eitt atriði sem ég fagna sérstaklega, þ.e. að hér er komið inn ákvæði um auglýsingamál. Ég er ekki nógu kunnugur frumvarpinu og finn þetta ekki en einhvers staðar er tekið á því að ekki megi birta auglýsingar sem eru niðurlægjandi eða niðrandi fyrir annaðhvort kynið. Í reynd snýr þetta fyrst og fremst að þeim landlæga ósið að nota kvenlíkamann á neikvæðan og niðrandi hátt í markaðssetningu og auglýsingum. Evrópuráðið hefur fjallað um þessi mál og ályktað um þau og beint tilmælum til aðildarríkjanna um að taka á þessum hlutum þannig að þetta kemur inn á hárréttum tíma. Reyndar held ég að taka ætti það til skoðunar, sem ég hef lengi verið baráttumaður fyrir, að það komi sjálfstæð löggjöf um auglýsingamál af þessu tagi.

Á sínum tíma, eftir heilmikið þóf, komst gamalt baráttumál mitt og fleiri í höfn með því að inn í samkeppnislög komu ákvæði sem bönnuðu auglýsingar sem beindust sérstaklega að börnum með vafasömum hætti. Það var að sjálfsögðu framför. Hér kemur annað ákvæði inn í önnur lög sem snýr að þessu hvað varðar kynin. Þá vaknar spurningin: Er ekki þörf fyrir sjálfstæða löggjöf sem tekur á siðareglum í auglýsingum almennt og tekur þar til allra þeirra hluta sem þar þarf að huga að, að börn séu varin fyrir óhæfilegum ágangi á þessu sviði, að menn séu ekki niðurlægðir á grundvelli kynferðis síns að þessu leyti og hvað þá með kynþátt og annað í þeim dúr? Gæti ekki verið ástæða til að huga að fleiri víddum þegar kemur að auglýsingunum og þessu félagslega, menningarlega og mannlega samhengi þeirra. Nægur er ágangurinn samt eins og t.d. vísvitandi og grófar tilraunir áfengisframleiðenda til að brjóta auglýsingabann á áfengi eru nærtækt dæmi um.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti. Þó eru nokkur atriði sem ég vildi koma inn á við 1. umr. þessa máls. Auðvitað er fjölmargt fleira sem þarfnast skoðunar og að rætt sé í þessum efnum og ég tek að sjálfsögðu undir að fylgja þarf málunum eftir með fjárveitingum þannig að hægt sé að framfylgja lögunum þannig að veruleg alvara sé á bak við þau, að menn ætlist til að þau séu virt. Mér virtist hv. þm. Pétur Blöndal hugsa sér einhvers konar eftirlitsiðnað sem mundi spretta upp í tengslum við þetta og tæki að sér að votta fyrirtæki. Ég veit ekki hvort það er endilega það sem við þurfum mest á að halda í þessu, að fóðra einhvern eftirlitsgeira á þessu sviði. Ég held að opinber löggjöf og sterk stjórnsýslutæki á þessu sviði eða framkvæmdarstofnun, eins og Jafnréttisstofa á að vera, sé það besta sem stjórnvöld geta gert í þessu en auðvitað þarf samfélagið allt að taka á í þessum efnum og vera meðvitað.

Það á ekki að líða þá forneskju að mönnum sé mismunað á grundvelli kynferðis síns þegar komið er langt inn á 21. öld og það eru auðvitað mikil vonbrigði að við skulum vera þar sem við erum stödd í dag, að þurfa að ræða um þessa hluti á þessum nótum, velta fyrir okkur kynjakvótum í stjórnum fyrirtækja, nefndum og ráðum o.s.frv. Maður hefði sannarlega vonað og einhvern tíma trúað því að sá tími væri einfaldlega um garð genginn nú, þessi mál væru almennt komin í lag og við þyrftum ekki að ræða um þau á þessum nótum.