135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[11:54]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst mál að hv. þingmaður er orðinn stuðningsmaður ríkisstjórnar og vill ekki að menn séu með of miklar aðfinnslur eða gagnrýni við það sem hún leggur fram. En ég bið hv. þingmann að vera ekki of viðkvæman fyrir því. Það á eftir að verða hluti af tilveru hv. þingmanns sem stjórnarliða að styðja ýmislegt sem er ekki endilega hafið yfir alla gagnrýni. Það hlýtur alla vega að vera í lagi að spyrja. Ég tel ekki að ég hafi verið með einhverja tortryggni, ég mundi ekki nota það orð sjálfur.

Ég nefndi nokkur atriði og var að reyna að bera saman tillögur starfshópsins og frumvarpið. Ég tel reyndar að það hefði verið betra að frumvarpið væri þannig úr garði gert að á einum stað væri samanburður á ákvæðum frumvarps starfshópsins annars vegar og hins vegar frumvarpsins þannig að auðveldara væri fyrir okkur hv. þingmenn að bera þetta saman. Ég hef ekki haft mikinn tíma til þess samanburðar en ég skoðaði þó þau atriði sem ég kom sérstaklega inn á. Og ég endurtek að ég held að 4. gr., og staða Jafnréttisstofu þar, þurfi sérstakrar skoðunar við. Þar sýnist mér frumvarpið vera veikara en tillögur starfshópsins og ég hlýt að mega vekja athygli á því. Það hlýtur að vera efnislegt innlegg í umræðuna að bera það saman.

Hv. þingmaður verður svo bara að láta sér líka við það eða ekki eftir atvikum. Ég get ekki horfið frá því sem ég hef áhuga á að skoða í þessum efnum af tillitssemi vegna viðkvæmni hv. þingmanns, nýorðins stuðningsmanns ríkisstjórnar.