135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[11:55]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni föðurlegar ráðleggingar um það hvernig manni beri að haga sér í þinginu þegar maður er kominn í stjórnarmeirihluta, og skilning hans á því. En það var ekki erindi mitt í þennan stól. Erindi mitt var að vekja athygli á því að í frumvarpinu er gengið lengra en niðurstöður starfshópsins gerðu varðandi launaleyndina. Ég fékk engin viðbrögð við því frá hv. þingmanni. Það var erindi mitt í þennan stól á sama hátt og hv. þingmaður kom í ræðustól áðan, eins og hann sagði réttilega, til að vekja athygli á því að hann teldi að gengið væri skemur á öðrum stöðum.

Ég kom hingað upp til að vekja athygli hv. þingmanns á því sem hann sagði, að greinin um launaleyndina væri einn af veikleikum frumvarpsins, hann sagði það í ræðu sinni. Ég vildi vekja athygli hv. þingmanns á því að niðurstaða nefndarinnar, sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð átti aðild að, gekk, að mínu mati, skemur í þeim efnum.