135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[11:56]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi má aldrei gera mönnum upp skoðanir þó að þeir hafi tekið þátt í nefndarstarfi, ef samkomulag tekst liggja auðvitað að baki ýmsar málamiðlanir. Hv. þingmaður getur að sjálfsögðu ekki fullyrt að fulltrúar Vinstri grænna í nefndinni hefðu ekki getað hugsað sér að hafa þessi ákvæði róttækari þó að þeir hafi að lokum sæst á heildarniðurstöðuna til samkomulags. Það liggur fyrir að við höfum barist fyrir því að afnema launaleynd sem slíka. Það er okkar afstaða, okkar pólitík, okkar stefna. En það á ekki að koma neinum á óvart að við hefðum viljað sjá þarna öðruvísi og betur útfærð ákvæði. Það breytir engu um það hvað fulltrúar okkar í starfshópnum féllust að lokum á til að samkomulag næðist varðandi málið í heild sinni. Eins og ég tók skýrt fram, og einnig hv. þm. Atli Gíslason, er að langmestu leyti fólgin framför í frumvarpinu þannig að menn leggja dálítið á sig til að landa því.

Það er vissulega rétt að launaleyndarákvæðið, eins og starfshópurinn gekk frá því, var ekki gallalaust. Það hefði mátt túlka það á þann veg, eins og mér var bent á áðan, að atvinnurekanda væri eingöngu óheimilt að gera þetta að skilyrði við ráðninguna sjálfa en eftir að ráðningarsamband hefði myndast væri ekki endilega tryggt að starfsmaðurinn gæti upplýst um launakjör sín. Greinargerðin var hins vegar augljóslega hugsuð þannig að þetta væri réttur sem væri að jafnaði til staðar og óheimilt væri að semja hann af starfsmanninum. Það er að sjálfsögðu betra en ekki neitt. En það breytir ekki hinu að ef þetta er eins og frumvarpið nú gerir ráð fyrir, að þetta sé alfarið í valdi starfsmannsins sjálfs — „ef hann svo kýs“ eins og það er orðað — þá er hann settur í þessa stöðu gagnvart vinnuveitanda sínum. Ég held að þarna þyrfti réttur starfsmannsins að vera algerlega ótvíræður og lögvarinn og hann ekki settur í þessa stöðu. (Forseti hringir.) Þannig að í reynd vantar pósitíft ákvæði sem bannar launaleynd. Það er besti frágangurinn í þessum efnum.