135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[12:12]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fjalla um það mál sem hér liggur fyrir, þ.e. frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi. Þetta er ágæt umræða sem hér á sér stað og ég heyri ekki betur en að menn séu í megindráttum sammála um þær leiðir sem lagðar eru til í frumvarpinu. Í því eru tekin og stigin mjög stór skref og að mínu mati gengið nánast alla leið í að nýta þau tæki sem við getum beitt í því að jafna stöðu karla og kvenna í íslensku samfélagi. Þarna erum við að tala um stöðu bæði karla og kvenna í íslenskri stjórnsýslu þar sem verulega hefur verið misskipt eftir kynjum við t.d. nefndarskipan og þá sérstaklega hallað á konur. Sömuleiðis er tekið á stöðu karla og kvenna í einkageiranum. Það er yfirlýst markmið þessa frumvarps, sem er auðvitað mjög víðtækt, að berjast gegn kynbundnu ofbeldi sem mér þykir afar ánægjulegt vegna þess að það er brýnt eins og hv. þm. Atli Gíslason nefndi í andsvari sínu áðan. Enn fremur er auðvitað yfirlýst markmið þessa frumvarps að útrýma hinum hvimleiða kynbundna og óútskýrða launamun.

Ég er sammála því sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði áðan, gott vinnulag var viðhaft í tengslum við vinnu nefndarinnar sem vann að frumvarpinu. Það var þverpólitísk vinna, hún var fyrir opnum tjöldum og ég tel að það hafi verið til mikillar fyrirmyndar hvernig að því var staðið.

Síðan er hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir komin með frumvarp sem gengur að mestu leyti út frá þessu þverpólitíska starfi en gengur jafnframt, eins og ég greindi frá í andsvari mínu áðan, lengra á ýmsum sviðum.

Virðulegi forseti. Ég varð dálítið hugsi undir ræðu hv. þm. Péturs Blöndals áðan varðandi boðin og bönnin, að hann hefði ekki trú á boðum og bönnum í þessum efnum, teldi frumvarpið bera það með sér og virtist ekki hafa mikla trú á þeirri leið. Þá fannst mér hæstv. ráðherra svara því ágætlega, við höfum í 50 ár verið með svona jákvæðar nálganir í þessum efnum, við höfum verið með jákvæða nálgun í lagasetningu og reynt að treysta á að nú mundu viðhorfin fara að breytast og vinnuveitendur og aðrir, og meira að segja ráðherrar, fara að taka sig á í þessum efnum. Raunin er bara allt önnur. Í samfélagi okkar og hér á hinu háa Alþingi búum við okkur til ramma, við búum til ramma fyrir samfélagið, lögin endurspegla tíðarandann og hvað það er sem við sem samfélag þolum og þolum ekki á hverjum tíma. Ég lít svo á að með lagasetningu eins og hér er kynnt séum við að gefa skýr skilaboð um að við þolum ekki önnur 50 ár af því ójafnrétti sem hér hefur ríkt í íslensku samfélagi. Við þolum það ekki. Þess vegna er verið að grípa hér til þessara ráðstafana.

Ég er sammála þeim sem hér hafa sagt að þeir séu leiðir yfir því, eins og hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon sagði áðan, og auðvitað sé fúlt að standa hér árið 2007 og ræða þessi mál með þeim hætti að það þurfi að grípa til róttækra aðgerða til að jafna stöðu karla og kvenna í íslensku samfélagi. Staðreyndin er bara sú að við þurfum þess og það sýnir sig í stöðu kvenna í stjórnum 100 stærstu fyrirtækja á Íslandi. Hún er 8% eins og hæstv. ráðherra kynnti í ræðu í síðustu viku. Hver er staðan í launajafnréttinu? Eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði hér áðan er 15–18% launamunur á kynjunum óútskýrður. Á þessu þurfum við að taka. Það er líka staðreynd eins og hv. þm. Atli Gíslason nefndi áðan að það er óþolandi ástand í kynbundnu ofbeldi hér á landi. Á þessu þurfum við, segi ég, því miður að taka, því miður. Það er bara staðreynd að á þessu þurfum við að taka og á þessu er tekið í frumvarpinu.

Ég vil ekki drepa málum á dreif eins og hv. þm. Pétur Blöndal með því að horfa á jafnrétti út fyrir það ójafnrétti sem á sér stað milli kynjanna. Þetta mál fjallar um jafnrétti milli karla og kvenna og við skulum halda okkur þar. Þar eru svo djúpstæð vandamál og ekki vanþörf á að taka til hendinni eins og staðan í dag sýnir eftir 50 ára löggjöf í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að stikla á einstaka atriðum þessa máls. Hér eru fjölmörg nýmæli í jafnréttislöggjöf sem hæstv. ráðherra hefur kynnt og þau eru þó nokkur sem ég vil gera hér að umtalsefni. Ég fagna því að það eigi að gera eftirlitshlutverk Jafnréttisstofu skýrara og að þar sé gert ráð fyrir því að Jafnréttisstofa hafi eftirlit með því að fyrirtæki og stofnanir setji sér jafnréttisáætlanir og fylgi þeim. Þetta segi ég vegna þess að hér hefur komið fram að konur eru að verða ívið menntaðri á Íslandi en engu að síður er staðreyndin sú að samkvæmt nýjustu upplýsingum um stöðuna hjá 100 stærstu fyrirtækjunum á Íslandi eru eingöngu 8% stjórnarmanna konur. Árið 2005 voru þær 12%. Þetta er gríðarleg afturför, virðulegi forseti, og þess vegna fagna ég því að í þessu frumvarpi eigi að búa til tæki til þess að veita fyrirtækjunum aðhald í þessum efnum. Þetta hefur ekki gerst með því að láta þau algjörlega óáreitt í þessum efnum heldur höfum við horft upp á afturför — úr 12% í 8%.

Þetta er auðvitað ekki vandi sem er bara bundinn við Ísland heldur er hann þekktur um gjörvallan heim. Norðmenn ákváðu að ganga alla leið í þessum efnum og settu hreinlega í lög að í stjórnum fyrirtækja þyrftu hlutföll milli kynja að vera a.m.k. 60:40. Ég yrði mjög hrygg ef við stæðum síðan hér mögulega eftir 5–10 ár og þyrftum að samþykkja slíka lagasetningu. Ég verð mjög hrygg ef við þurfum að gera það vegna þess að þetta er það ýtrasta sem hægt er að gera af hálfu löggjafans. Ég lít svo á að þau tæki sem lögð eru fram í þessu frumvarpi núna séu í raun og veru síðasta úrræðið áður en gripið verður til slíkra aðgerða. Ég vona svo sannarlega að við þurfum ekki að standa hér í þeim sporum eftir 5–10 ár, þeir sem sitja þá á þingi. Ég hef trú á að svo verði ekki vegna þess að þessar leiðir — þær eru margar sem hér eru farnar — eigi að geta skilað okkur miklu betri árangri án þess að fara út í svona þvingaðar og þvingandi aðgerðir.

Sömuleiðis fagna ég því líka sem hér er sagt um kærunefnd jafnréttismála þar sem lagt er til að úrskurðirnir verði bindandi fyrir málsaðila í stað þess að vera álit eins og áður. Það að kærunefnd jafnréttismála skili núna bindandi úrskurði breytir auðvitað eðli kærunefndarinnar algjörlega og þarna fá þeir sem telja á sér brotið raunverulegan úrskurð, ekki bara einfalt álit. Álitin hafa ekki skilað neinum árangri eins og hér hefur verið nefnt.

Enn fremur fagna ég því að í þessu frumvarpi sé lagt til að gjafsókn verði veitt kæranda í tilvikum þegar úrskurðir kærunefndar eru kæranda í hag hafi gagnaðilinn þá höfðað mál til ógildingar úrskurðinum. Þessu fagna ég sérstaklega. Staðan er þannig í dag að ef einstaklingur kærir til kærunefndar jafnréttismála kemur eitthvert álit og síðan stendur viðkomandi eiginlega úti á berangri. Þarna er tekið utan um kærandann að öllu leyti og sömuleiðis auðvitað þann sem er kærður ef kærurnar eiga ekki við rök að styðjast. Ég tel vel að þessu máli staðið og er gríðarlega ánægð með þessa ráðstöfun.

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. Það er eiginlega ekki hægt að ræða það öðruvísi en að við erum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar búin að samþykkja hér jafnréttisáætlanir á hinu háa Alþingi, tel ég, þar sem kveðið er á um hlutverk jafnréttisfulltrúa í ráðuneytunum. Þeir fulltrúar hafa hingað til ekki fengið nógu skýrt hlutverk og ekki heldur nógu mikið ráðrúm til að sinna starfinu innan ráðuneytanna, það hefur verið vandinn. Starfsmenn sem þegar hafa verið í vinnu innan ráðuneytanna hafa verið skipaðir jafnréttisfulltrúar en þeir hafa ekki fengið í mörgum tilfellum — ég er ekki að alhæfa — í of mörgum tilfellum hafa þeir ekki fengið tíma til að sinna þessum störfum eins og þeir hefðu viljað eða eins og þeir hefðu þurft. Þess vegna tel ég að ráðuneytin þurfi að gefa jafnréttisfulltrúunum aukið svigrúm í störfum sínum innan ráðuneytanna. Ég reyndar fagna því að innan sérhvers ráðuneytis verði sérstakur jafnréttisfulltrúi sem hefur sérþekkingu á jafnréttismálum. Það mun skerpa hlutverk jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna

Virðulegi forseti. Ég nefndi í upphafi að eitt af markmiðum þessa frumvarps hljóti að vera að jafna stöðu karla og kvenna innan stjórnsýslunnar. Þá kem ég hér kannski að því líka að til stendur að lögfesta að hlutfall kynjanna verði sem jafnast, og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá er að ræða í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Þetta er nefnilega líka atriði sem við höfum samþykkt hér oftar en einu sinni, oftar en tvisvar og oftar en þrisvar í jafnréttisáætlunum, það hefur bara ekki reynst nóg og þess vegna er þetta sett hér inn í frumvarpið þannig að þetta verði að lögum. Staðan innan margra ráðuneytanna er vægast sagt alveg ferleg.

Ég hef lagt fram fyrirspurnir hér á þingi þar sem ég hef beðið um yfirlit yfir kynjahlutföll í öllum nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytanna og niðurstöðurnar voru þannig að helmingur ráðuneytanna — þar stóð sig öllu verst landbúnaðarráðuneytið gamla með 86% hlutfall karla í nefndum, stjórnum og ráðum á sínum vegum, það stóð sig verst. Þau ráðuneyti sem höfðu staðið sig verst voru jafnframt ráðuneyti fyrrverandi ráðherra og núverandi hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur. Hefði maður ætlað að kona að störfum í því ráðuneyti hefði reynt að hafa auga með þessu en það ráðuneyti var líka með hrópandi halla á konur í stjórnum og nefndum á vegum þess ráðuneytis.

Ég er ekki með þetta svar hérna hjá mér núna en ég hvet fólk til að kynna sér það. Sú niðurstaða var ansi sláandi, sérstaklega í ljósi þess að í ráðuneytunum brutu menn — og hafa trekk í trekk brotið — samþykktir Alþingis í þessum efnum. Því fagna ég að hér sé þetta lögfest þannig að það leiki enginn vafi á því hvernig mönnum beri að haga sér í þessum efnum, framtíðarráðherrum og núverandi.

Virðulegi forseti. Ég fagna líka þessu ákvæði þar sem fjallað er um að kynjasamþætting verði tryggð. Ég vil nefna það hér sem dæmi að við þurfum líka í störfum okkar hér í þinginu í auknum mæli að fara að samþætta kynjasjónarmið inn í okkar störf. Þetta nefni ég vegna þess að ég sat í fyrravor mjög áhugaverðan fund á NATO-þingi, fund þar sem var verið að fjalla um konur og stöðu kvenna í heimi varnar- og öryggismála. Þar fór fram heilmikil umræða um það að þegar þjóðþingin eru að fjalla um öryggis- og varnarmál er það yfirleitt gert út frá forsendum hernaðarins og þeirrar starfsemi sem karlarnir stunda í heiminum en konurnar og börnin gleymdust algjörlega. Það er hins vegar sá hópur sem er á flótta, sá hópur sem er á vergangi um heim allan í milljónavís, í tugmilljónavís, konurnar og börnin. Ég held líka að við hér á Alþingi megum ekki gleyma að samþætta þessi sjónarmið í okkar almennu störfum.

Virðulegi forseti. Ég get ekki lokið máli mínu án þess að koma inn á launaleyndina. Eins og kom fram í andsvari mínu áðan fagna ég mjög þessu skrefi sem hér er stigið, þ.e. að setja í lög að starfsmönnum skuli ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo. Eins og ég nefndi áðan hefur þetta atriði verið skýrt frá því þegar Guðrúnarnefndin svokallaða skilaði af sér þar sem þetta atriði var óskýrt, að við ráðningu skyldi launagreiðendum vera bannað að gera það sem skilyrði fyrir ráðningu að launþegar segðu ekki frá launum sínum. Þessu atriði fagna ég mjög og sérstaklega orðalaginu vegna þess að með því er verið að banna atvinnurekendum að gera við starfsmenn sína samninga um að þeir greini ekki frá launakjörum sínum. Í orðunum að starfsmanni skuli „ávallt heimilt“ að skýra frá launakjörum sínum felst að það er verið að banna atvinnurekendum að semja um nokkuð annað en það að þessum starfsmanni sé ávallt heimilt að segja frá launum sínum.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson ræddi þetta atriði talsvert. Það var margt sem hann sagði sem ég get verið sammála. Ég var sammála orðum hans um þá skömm sem launaleyndin er, en hann taldi ekki að þetta væri rétta leiðin og þar er ég honum algjörlega ósammála. Hann vildi að við breyttum aðferðafræðinni til að nálgast þetta vandamál. Ég sé ekki betur en að hér sé verið að gera mjög róttæka breytingu á aðferðafræðinni sem er að banna launaleynd, banna samninga um leynd launa með því að heimila starfsmönnum ávallt að segja frá tekjum sínum. Ég lít svo á að hér sé um mjög róttæka breytingu á aðferðafræðinni að ræða. Þetta hefur aldrei verið gert í íslenskri löggjöf og þess vegna fagna ég þessu verulega.

Varðandi auglýsingar var lagt til það nýmæli að það væri óheimilt að birta auglýsingu í fjölmiðlum sem væri öðru kyninu til minnkunar. Þessu fagna ég mjög vegna þess að við sjáum enn þann dag í dag í blöðum heilsíðuauglýsingar þar sem kvenlíkaminn er gjarnan notaður á mjög, ja, ég mundi segja niðrandi hátt til að auglýsa einhverjar vörur og vekja á þeim athygli. Alltaf skapar þetta nefnilega ákveðið umtal, þ.e. þegar menn ganga langt í þessum efnum og menn virðast einhvern veginn hafa gengið á lagið með að nota þetta til að vekja á sér athygli. Það eru mörg sorgleg dæmi um það, mjög sorgleg dæmi. Auðvitað er gott að hafa húmor fyrir sjálfum sér og allt í lagi að byggja það á kynferði en allt of oft er gengið of langt og líkami kvenna gerður að söluvöru.

Ég vil síðan líka nefna að ég fagna mjög þessari nýju skipan jafnréttisráðs, þ.e. þeirri áherslu á að Samtök um kvennaathvarf og Stígamót eigi fulltrúa í ráðinu vegna þess að ég tel að þar sé verið að stimpla rækilega inn að þessu jafnréttisráði sé ætlað stórt hlutverk í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og lokið tíma mínum. Ég vil segja að lokum að ég fagna þessu máli mjög og tel að hér sé verið að gera róttækar breytingar í átt að auknu jafnrétti kynjanna.