135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[12:39]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég er hv. þingmanni ekki sammála um að heimildir Jafnréttisstofu séu veikar. Ég tel t.d. gríðarlega sterkt tæki að Jafnréttisstofa hafi heimildir til að leggja dagsektir á fyrirtæki fari þau ekki að tilmælum hennar. Það tel ég t.d. gríðarlega sterkt ákvæði. Það tekur af allan vafa um það hver ætlun löggjafans er í þessum efnum. Standi menn sig ekki, fari þeir ekki að tilmælum Jafnréttisstofu, eru þeir beittir dagsektum. Það tel ég mjög sterkt ákvæði og er það bara eitt af mörgum tækjum sem í þessu frumvarpi felast, þ.e. til handa Jafnréttisstofu í þessum efnum. Það er sterkt og ég tel það líka gríðarlega róttækt.

En ég fagna mjög svo þessari umræðu og líka að margir hafa tekið þátt í henni. Enn fremur fagna ég því að hv. þingmaður boðar hér breytingartillögur sem vissulega verða ræddar í meðförum málsins. Þessu máli, jafnréttismáli, er aldrei lokið, þ.e. að finna réttu leiðirnar, finna tækin og tólin til þess að koma hér á jafnrétti milli kynjanna. Því verður ekki lokið fyrr en við höfum náð fullkomnu jafnrétti milli karla og kvenna í íslensku samfélagi.