135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[12:47]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Ég fagna tækifærinu sem við fáum til að ræða jafnréttismálin, þau mikilvægu mál, í sölum Alþingis. Ég er sammála mörgu því sem hefur komið fram í dag og minna sammála öðru eins og gengur. Ég er sammála flokksbróður mínum Pétri H. Blöndal um að jafnréttið sé þjóðarnauðsyn og ég held að við getum öll tekið undir það í þessum sal. Launamunur sem er ekki útskýrður með öðru en kynferði er nokkuð sem við eigum ekki að sætta okkur við. Um það getum við eflaust öll verið sammála líka.

Ég tel mjög jákvætt að þetta frumvarp sé komið fram. Ég tek heils hugar undir þau markmið sem í því felast en þau eru m.a., með leyfi forseta:

„… að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.“

Þetta eru markmið sem ég held að við getum öll tekið undir. Ég geri það að minnsta kosti. Þess vegna styð ég þetta frumvarp.

Það eru nokkur atriði í frumvarpinu sem eru vissulega umdeilanleg og hafa verið rædd áður og nokkur atriði sem ég tel að betur megi fara. Ég beini því sérstaklega til hæstv. félagsmálanefndar að skoða þau vandlega. Ég ætla aðeins að ræða þau stuttlega.

Mig langar kannski fyrst að nefna nokkuð sem er eilítið óáþreifanlegt. Ég vil biðja nefndina um að skoða það kannski með þeim formála að það snýst meira um yfirbragð, nálgun, hugmyndafræði en annað. Það hefur komið fram í umræðunni, m.a. í máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, þetta með nálgun og hugarfar. Ég vil persónulega nálgast jafnréttismálin eins og önnur mál með jákvæðum hætti. Ég get ekki tekið undir það, eins og margir sem tala um þessi mál, að hér sé allt í ólestri í jafnréttismálum. Ég held að það sé mjög ósanngjarnt að halda því fram og óréttmætt vegna þess að við vitum að Ísland er ásamt hinum Norðurlöndunum í fararbroddi hvað varðar jafnréttismál. Við vitum að margt hefur áunnist á liðnum árum í þessum málum, margt sem við getum verið afar stolt af.

Ég er afar stolt af nýjum lögum um fæðingarorlof sem hér hafa verið nefnd. Ég þekki vel til þeirrar lagasetningar og kom að henni sjálf sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra á sínum tíma. Ég tel þau mjög stórt og merkilegt skref í átt að því að stuðla að auknu jafnrétti í samfélaginu.

Ég vil líka nefna að aukið hlutfall kvenna í háskólum er stórt skref í jafnréttisátt. Ég trúi því og treysti að aukin menntun kvenna, aukin háskólamenntun og fagmenntun, að öll aukin menntun muni leiða til þess að launamunurinn sem ég nefndi áðan minnki. Ég get ekki tekið undir það sem margir halda fram, að hér hafi ekkert gerst og hér sé allt í kaldakoli. En ég held því heldur ekki fram að við séum komin á leiðarenda. Ég tel það fjarri sannleikanum. Þess vegna fagna ég þessu frumvarpi og tel að þar sé margt til bóta.

En ég nefndi yfirbragðið. Ég hef efasemdir um það og ég beini því til hæstv. félagsmálamálanefndar að skoða það, líkt og hv. þm. Pétur Blöndal gerði, hvort besta leiðin til að ná þessum markmiðum, sem ég held að við séum öll sammála um, sé að beita dagsektum og tilmælum, að sýna klærnar eins og hæstv. félagsmálaráðherra tók til orða. Ég hefði viljað sjá atvinnulífið jafnt og hið opinbera hvatt áfram með jákvæðari hætti. Jafnlaunavottunin hefur verið nefnd og ég get tekið undir það sem aðferðafræði.

Ég vil líka vísa í stjórnarsáttmálann en þar er fjallað um launamun kynjanna og útrýmingu hans með þeim hætti. Þar er hvatt til þess að hið opinbera og atvinnulífið taki höndum saman í að leita leiða til að uppræta launamun kynjanna. Sú hvatning finnst mér mjög mikilvægt ákvæði í stjórnarsáttmálanum og ég hefði viljað sjá það koma sterkar fram í frumvarpinu.

Ég óttast að fyrir lítil fyrirtæki, t.d. þar sem eru 25 starfsmenn eða fyrirtæki með 25 starfsmenn eða færri, verði þetta mjög íþyngjandi. Mörg þeirra hafa ekki bolmagn til að vinna þessar svokölluðu jafnréttisáætlanir og koma þeim skila. Þær yrðu þá beittar dagsektum. Ég óttast að þetta verði mjög íþyngjandi og muni þar af leiðandi skapa neikvætt viðhorf til jafnréttismálanna sem yrði til þess að við náum ekki samstöðunni sem svo eindregið er hvatt til í stjórnarsáttmálanum.

Þá er ég komin að því atriði sem ég geri kannski mestar athugasemdir við og hef mestar áhyggjur af, verði þetta frumvarp óbreytt að lögum. Það eru þær skyldur sem lagðar eru á atvinnulífið með frumvarpinu. Heimildir Jafnréttisstofu eru samkvæmt frumvarpinu styrktar til að krefja fyrirtæki á almennum markaði um að gera jafnréttisáætlanir og krefja þau um önnur gögn, ella varði það dagsektum. Mér finnst það dálítið bratt. Þetta eru sannarlega auknar álögur eins og ég nefndi áðan og ég óttast þessa neikvæðni. Ráðherra nefndi það sjálf áðan í ræðu sinni, sagði eitthvað á þá leið að jafnréttisáætlanir hefðu ekki dugað hingað til og vísaði til þess að fyrirtæki hafi ekki skilað þeim hingað til og þess vegna væri verið að gera lagasetninguna beittari. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta hefur verið vandamál. En ég er ekki sannfærð um að það að skikka fyrirtæki til að gera jafnréttisáætlun sé leiðin að jafnrétti. Bara ef við getum fengið öll fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri og stofnanir til að skila inn jafnréttisáætlun þá verði leiðin greið í jafnréttisátt. Ráðherra nefndi að búið væri að gefa tíma til þess að sannreyna þetta. En við höfum komist að raun um að fyrirtækin hafa ekki skilað jafnréttisáætlunum. Ég hefði viljað fá sannreynt hvaða gagn jafnréttisáætlanirnar gerðu.

Ég mundi leggja til að tekið yrði eins konar milliskref, að áður en við skikkum öll fyrirtæki til að taka þátt í þessu og aukum heimildir Jafnréttisstofu verði gildi þess að gera jafnréttisáætlanir kannað til hlítar. Ég vil sannreyna hugmyndafræðina, ef svo má segja, áður en við höldum lengra. Þess vegna væru þau hugsanlegu milliskref í þessu, annars vegar að láta þetta gilda um fyrirtæki í opinbera geiranum. Ráðherra nefndi einmitt í ræðu sinni að sjálfsagt væri fyrir Stjórnarráðið að fara á undan með góðu fordæmi og ég tek undir það. Við erum búin að leiða það í lög í stjórnarskrá, eins og hér hefur verið bent á, að brot á jafnrétti er mannréttindabrot. Ég er alveg sammála því. Þess vegna mundi ég vilja sjá þessa lagaskyldu og þessar heimildir ná til opinberra fyrirtækja fyrst á meðan við sannreynum gildi þeirra. Ef mönnum þætti það ekki ásættanlegt væri annað milliskref það að láta þetta gilda um stærri fyrirtæki, eingöngu til að byrja með. Ég mundi vilja hafa það t.d. fyrirtæki með 100 starfsmenn eða fleiri þar sem allur strúktúr fyrirtækjanna er þannig að þeim yrði ekki íþyngt um of. Fyrirtæki af þessari stærðargráðu eru með starfsmannastjóra, þau eru með starfsþróunardeildir og þann infrastrúktúr, ef ég má nota það orð, sem þarf til að hrinda slíku í framkvæmd. Ég held að til einhvers tíma, það þurfa ekki að vera mörg ár, þurfum við að hafa tæki til að meta árangurinn af þessu. Þá væri ég tilbúin, ef ég væri sannfærð um að þetta væri sannarlega leiðin til jafnréttis, að skoða þetta með atvinnulífið allt í huga.

Ég ætla nú ekki að taka einstakar greinar fyrir en vil þó nefna annað atriði. Ég hvet félagsmálanefnd til að taka til skoðunar hvort frumvarpið, svo þversagnarkennt sem það kann að hljóma, sé of kvennamiðað. Ég nefni t.d. að þegar rætt er um skipan í nýtt jafnréttisráð þá eru Stígamót, kvennafræði og öll þessi félög, femínistafélagið, þessi félög og stofnanir, með tilnefningarrétt en ég sakna þess að sjá þar ekki t.d. fulltrúa frá félagi um foreldrajafnrétti sem áður var, að ég best veit, Félag einstæðra feðra. Það félag hefur barist mjög fyrir réttindum feðra og þá karla í jafnréttisátt. Mér finnst að þeirra sjónarmið ættu svo sannarlega að heyrast í jafnréttisráði. Það eru kannski fleiri slík félög sem mætti huga að að bættust inn í eða skipta út fyrir. Mér finnst dálítil slagsíða á þessu.

Hvað varðar afnám samningsbundinnar launaleyndar, sem hefur verið hér til umræðu, þá held ég að það sé hárrétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir varðandi það að starfsmaður hafi val um það hvort hann gefi upp launin sín eða ekki samkvæmt ákvæðinu eins og það er í frumvarpinu. Ég sé af hverju við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon erum ekki sammála um þetta. Mér er ljúft og skylt að upplýsa um hugmyndafræðilegan ágreining milli mín og þingmannsins. Vegna þess að þingmaðurinn vill þarna væntanlega, eins og annars staðar, skylda fólk til að gera hluti sem ég vil endilega að það hafi val um. Ég held að túlkunin hjá þingmanninum sé hárrétt að þessu leyti. Ég geri engan ágreining um þetta ákvæði vegna þess að mér finnst sjálfsagt að fólk hafi þar frelsi sem það vill til þess að greina frá launum sínum ef það svo kýs.

Að lokum, herra forseti. Af umræðunni hér í dag að dæma þá erum við öll með sama markmið að leiðarljósi. Við viljum öll jafnrétti. Eins og sá sem talaði næstur á undan mér nefndi að sumir karlar nefndu dætur sínar, mæður og aðra ættingja til stuðnings þessu markmiði. En ég held að þetta sé svo augljóst að við eigum ekki einu sinni að þurfa að tína til fjölskyldur okkar þessu máli til stuðnings. Jafnrétti, jöfn tækifæri milli karla og kvenna og á milli einstaklinga af hvaða kyni sem þeir eru, er í mínum huga sjálfsagt.

Okkur greinir hins vegar á um leiðir og okkur greinir á um hugmyndafræði og aðferðir. Ég vil ljúka máli mínu á að hvetja hæstv. ráðherra og hæstv. félagsmálanefnd til þess að skoða vel þær athugasemdir sem hafa komið fram í dag til þess að við getum á endanum öll verið sammála um að ljúka þessari lagasetningu í góðri sátt þannig að markmið okkar allra um jafnrétti nái fram að ganga.