135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:26]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég var einu sinni í afmæli fimm ára barns og meðal gjafanna var dúkka, svo var greiðusett í bleikum pakkningum, þá dúkkuhús, síðan pottar og pönnur í bleiku og nú vil ég biðja hv. þingmenn að giska á hvers kyns barnið var. Það er ekki mikill vandi. Þetta var sko ekki drengur! Ég hygg að þarna sé kannski uppruninn og ástæðan fyrir því kynjamisrétti sem við eigum við að búa. Við búum börnin okkar strax í bernsku undir ákveðin kynjahlutskipti og hlutverk.

Jafnréttismál eru réttlætismál fyrst og fremst. Við viljum ekki sjá að fólki sé mismunað vegna einhverra annarra aðstæðna en vegna getu og verðleika. Mér finnst að það eigi að ráða fólk í vinnu eingöngu eftir hæfileikum þannig að ég lít alltaf á jafnréttismál sem jafnrétti fólks en ekki kynja. Ég held að kynjamisrétti sé einfaldlega birtingarmynd af misrétti sem viðgengst meðal fólks. Við sjáum ekki þegar tveimur karlmönnum er mismunað en við sjáum þegar konu og karli er mismunað.

Afleiðingar kynjamisréttis eru að þjóðfélagið er fátækara en ella í mörgum skilningi, bæði fjárhagslega og efnahagslega, vegna þess að bestu starfsmennirnir eru ekki nýttir í bestu störfin. Það er mjög hættulegt og skaðlegt. Þess vegna ættu þeir sem vilja að efnahagsleg staða þjóðfélagsins sé góð að berjast fyrir jafnrétti og nýta hvern þjóðfélagsþegn eins vel og hægt er.

Þeir sem rekið hafa fyrirtæki, herra forseti, vita hversu erfitt er að ákvarða mönnum laun. Þeir sem aldrei hafa rekið fyrirtæki halda að það sé voðalega einfalt en svo er ekki. Sá sem er duglegur og skaffar tvöfalt meira en allir í kringum hann reiknar með því að fá hærri laun en hinir. Sá sem er stundvís og heldur með þeim hætti uppi ákveðnum aga í fyrirtækinu reiknar með því að það sé einhvers metið. Sá sem er búinn að starfa hjá fyrirtækinu í 30 til 40 ár og veit hvað gera á þegar ákveðnar aðstæður koma upp í þjóðfélaginu eða í fyrirtækinu, telur reynslu sína afskaplega mikils virði. Sá sem er snjall og finnur alltaf bestu lausnina í hvelli, þó að hann sé ekkert sérstaklega duglegur, stundvís eða með mikla reynslu, sér að hann er mikils virði fyrir fyrirtækið og vill fá borgað fyrir það. Sá sem sýnir fyrirtækinu trúnað og stendur með því í gegnum þykkt og þunnt reiknar líka með því að fá umbun fyrir það. Sumir eru búnir að leggja á sig langskólanám og vilja að sjálfsögðu fá menntunina metna. Svo eru sumir bara skemmtilegir og ómetanlegir sem slíkir fyrir fyrirtækið.

Þetta sýnir hve erfitt er að bera saman laun og ákveða hversu mikið einstakir starfsmenn eiga að fá. Þó að menn legðu það í hendur starfsmannanna að ákveða launin sín á milli mundi aldrei nást samvinna eða sátt. Sá sem er duglegur vill fá borgað fyrir það. Hann sættir sig ekki við að sá sem er með mikla reynslu en er hundlatur eigi að fá meira. Þetta er vandamálið í hnotskurn, þetta er ekki einfalt mál.

Svo eru fyrirtæki misjöfn. Það getur verið að eitt fyrirtæki borgi lág laun en allir vilji vinna hjá því af því að þeim finnst það gaman, þar er góður starfsandi, haldið er upp á afmæli, farið í bíó eða sumarbústað eða eitthvað annað skemmtilegt gert. Menn eru tilbúnir til að fórna launum fyrir slíkt. Það er því margt þessu tengt sem ekki verður metið til launa. Ég tel því, herra forseti, að frumvarpið, sem ætlað er að einfalda málin, gangi ekki upp. (Gripið fram í.)

Sem betur fer eru konur að sækja í sig veðrið varðandi menntun og meira að segja komnar í meiri hluta í háskólum landsins. Það er jákvætt nema náttúrlega fyrir karlmenn sem sitja eftir. Hvernig stendur á því að fyrirtæki ræður óhæfari starfsmann í staðinn fyrir hæfari?

Hvernig stendur á því að menn leyfa sér að láta fordóma og ýmislegt annað stjórna því að þeir ráða óhæfari starfsmenn? Vilja þeir ekki græða? Það er eitthvað sem menn ættu að velta fyrir sér. Getur verið að skortur sé á kröfu um arðsemi í fyrirtækjum almennt og alveg sérstaklega í opinberum fyrirtækjum? Ég held að ef menn vildu virkilega græða og regluleg krafa væri um arðsemi í öllum fyrirtækjum, jafnt hjá hinu opinbera sem í einkafyrirtækjum, mundi þetta breytast. Þá hefðu menn ekki efni á því að ráða óhæfari manneskju, karl eða konu, en hæfari.

Í frumvarpinu ætla menn, eins og hæstv. ráðherra sagði, að sýna klærnar. Það hefur ekki alltaf gefist vel. Það er sífellt talað um að herða refsingar og viðurlög. Samt höfum við eiturlyf, lögbrot og skattsvik. Ég er ekki viss um að sú stefna sé endilega af hinu góða. Menn fara bara fram hjá lögunum ef því er að skipta. Við erum búin að reyna í mörg ár að ná fram jafnrétti kynjanna og því virðist meira að segja hafa farið aftur, því miður. Það skyldi þó ekki vera að eitthvað sé að aðferðafræðinni sjálfri?

Ég hélt lengi vel að fæðingarorlofið, sem er eitt stærsta skref sem við höfum stigið í jafnréttisátt, mundi jafna þann mun sem ég sé. Jómfrúrræða mín fjallaði einmitt um að munur væri á milli kynjanna í fæðingarorlofi sem þá var. Þá er það spurningin: Hvað er þá eftir? Við stöndum enn með fordóma karla gagnvart konum og fordóma kvenna gagnvart sjálfum sér og öðrum konum. Svo finnast enn fordómar eins og þeir sem alið var á í afmælinu sem ég gat um áðan.

Ég held því að sú aðferð að sýna klærnar sé ekki endilega rétt né heldur að vísa í samkeppnislög og skattalög o.s.frv. Það tel ég ekki sambærilegt. Í umferðarlögum eru menn sáttir við að keyra hægra megin af því að það er bráð nauðsyn. Það sjá allir að það mundi leiða í ógöngur ef menn færu að keyra bæði hægra og vinstra megin, þar er nauðsyn að hafa mjög skýrar reglur. Þar sem þörfin fyrir refsingar er ekki eins mikil held ég að þær bregðist því að menn skilja ekki tilganginn með þeim.

Í frumvarpinu er mikið talað um jafnrétti. Hér má nefna Jafnréttisstofu, kærunefnd jafnréttismála, jafnréttisráð, jafnréttisþing, þingsályktun um framkvæmdaáætlun um jafnréttismál, jafnréttisnefndir sveitarfélaga, jafnréttisfulltrúa, jafnréttisráðgjafa o.s.frv. Þetta er heljarinnar jafnréttisiðnaður nákvæmlega eins og við upplifum fíkniefnavarnaiðnaðinn. Hvað mundi það fólk sem vinnur við þetta gera ef jafnrétti kæmist allt í einu á? Það hefur sko engan áhuga á því í rauninni því að þá yrði það atvinnulaust. Menn skulu passa sig á því að búa ekki til svona iðnað. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að það verði eitthvað annað að gera þegar jafnréttið er komið á. (Gripið fram í.)

Það er merkilegt þegar maður hugleiðir það: Hver er hin raunverulega eign fyrirtækja og stofnana? Er það bíllinn, húsnæðið, skrifstofan, stóllinn eða hvað? Nei, það er fólkið. Hvert einasta fyrirtæki sem vill virkilega viðhalda eign sinni og auka hana gætir að því að gefa starfsfólkinu ákveðin skilaboð, meðal annars með því að sýna jafnrétti í einhverjum skilningi. Það er hluti af samskiptum fyrirtækisins við þessa mestu auðlind sína sem starfsfólkið er. Ég tel að jafnréttisvottun þar sem fyrirtækin mundu afhenda ákveðnum trúnaðarmanni allar upplýsingar sem hann krefst, t.d. um launasamninga og réttlætingu á mismunandi launum með tilliti til dugnaðar, stundvísi, reynslu, snilli, trúnaðar, menntunar og fleira, væru skýr skilaboð til starfsfólksins frá fyrirtækinu. Slíkt væri miklu meira virði en einhver tóm plögg um jafnréttisáætlanir með fallegum orðum án framkvæmdar. Menn ættu alla vega að skoða þann möguleika. Hv. nefnd sem fær þetta mál til umsagnar ætti virkilega að hugsa um að reyna að lokka fyrirtækin í staðinn fyrir að berja þau. Það gefst oft betur í námi og kennslu.

Ef ég ætla að ráða mér verkfræðing til að hanna hús vil ég helst að hann hafi lært eitthvað í verkfræði. Ég vil vottorð frá háskóla um að þessi maður sé verkfræðingur og það dugar mér. Með sama hætti mundi Jafnréttisstofa, sem yrði þá bara ein eftir, votta að ákveðið fyrirtæki sinnti jafnrétti í hvívetna. Ég held nefnilega að flest fyrirtæki vilji það. Vandinn er að finna málamiðlun milli starfsmannanna.

Eins og talað er um umhverfissinnuð fyrirtæki sem græn, væri hægt að tala um jafnréttissinnuð fyrirtæki sem bleik eða eitthvað álíka. Þau mundu sýna fram á að þau sinntu jafnrétti. Þau fengju þá væntanlega betra starfsfólk því að hver vill vinna hjá fyrirtæki sem ekki gætir jafnréttis? Ekki karlar neitt frekar en konur vegna þess að þeir vilja líka njóta jafnréttis þegar þeir eru ráðnir. Þá á ég við jafnrétti í almennum skilningi en ekki kynjajafnrétti.

Ég vil ljúka þessu með því að undirstrika að ég tel að jafnrétti sé afskaplega mikils virði, bæði út frá réttlætissjónarmiði og þjóðhagslegu. Við nýtum ekki mannauðinn til fulls ef við gætum ekki jafnréttis og setjum ekki þann hæfasta í bestu stöðuna.