135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:43]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst orðræða hv. þingmanns, það er að árangri í jafnréttismálum verði náð með jafnréttisvottun fyrirtækja, vera lítið innlegg til umræðunnar.

Eins þótti mér afar miður að hv. þingmaður fullyrti hér áðan í ræðustól að það fólk sem vinnur að jafnréttismálum hafi engan áhuga á að ná jafnrétti því að þá yrði það atvinnulaust. Ég held að svona ummæli séu ekki til þess fallin að efla og styrkja umræðuna og mér þætti mjög við hæfi ef hv. þingmaður kæmi hér upp og bæðist afsökunar á þessu. Ég hef að minnsta kosti fulla trú á því að það fólk sem vinnur í þessum málum geri það af heilindum og festu og hafi það kannski einmitt að markmiði að starf þeirra við jafnréttismál verði óþarft. Ég hugsa að hv. þingmaður, miðað við þau sjónarmið sem hann hefur viðrað hér á þinginu, yrði glaður ef ekki þyrfti að vera með heila iðngrein í þessu ferli.

Ég fullyrði að fólk sem vinnur að jafnréttismálum gerir það af heilindum og festu og við megum ekki kasta rýrð á störf þess eða metnað eins og hv. þingmaður gerði í ræðustóli áðan.