135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:49]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur kannski einhvern tíma reynt að ýta hrossi inn um dyr og hv. þingmaður hefur einhvern tíma reynt að teyma hross inn um dyr. Það er munur á þessu. Hrossið verður gersamlega statt, klárinn verður staður ef reynt er að ýta honum. Það er einmitt sá munur sem ég sé á aðferðunum. Annars vegar að reyna að þvinga atvinnulífið til að gera eitthvað og hins vegar að lokka það til að gera það.

Sú vottun sem ég er að leggja til væri af frjálsum vilja. Fyrirtækin gætu sótt um vottun og jafnvel borgað hana sjálf. Munurinn er talsverður á því að hafa vottun þar sem er virkilega farið í gegnum það að fyrirtæki framfylgi ákveðnum jafnréttissjónarmiðum og jafnrétti í mannaráðningum og öðru slíku, og því að krefjast þess að lagt sé fram blað sem heitir jafnréttisáætlun með fögrum orðum sem aldrei er farið eftir. Þetta er verulegur munur, frú forseti. Ég ætla að vona að menn geri mun á því hvort þeir eru lamdir til hlýðni eða lokkaðir til hlýðni.