135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:52]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í 4. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi frú forseta:

„Ákvörðun um dagsektir samkvæmt 5. og 6. mgr. skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir geta numið allt að 50.000 kr. hvern dag.“

Eru þetta ekki refsingar? Frú forseti, eru þetta ekki refsingar? Er ekki verið að berja menn til hlýðni, láta þá gera eitthvað sem þeir vilja ekki eða langar ekki til að gera? Það er mikill munur á þessu, með refsingum og dagsektum o.s.frv. eða lokka með vottun. Það er margt í þessu frumvarpi sem gengur í sömu átt, með refsingum.

Það er verið að þvinga fyrirtækin til að gera eitthvað sem sum þeirra vilja ekki gera. Þá verður til andstaða og undanskot og innantómar jafnréttisáætlanir sem enginn fer eftir. Það er miklu skynsamlegra að gefa mönnum vottorð um það, ákveðnu góðu fyrirtæki, að það framfylgi jafnréttisstefnu sinni á jafnréttissinnaðan hátt. Þá vita það allir og þeir geta auglýst: Ég er jafnréttissinnað fyrirtæki. Komið til mín, vinnið hjá mér. Ég hugsa að þau fyrirtæki fengju meira úrval af starfsfólki með slíkt vottorð. Þetta er munurinn á því að ýta klárnum áfram, lemja hann áfram og hinu, að teyma hann eða lokka hann.