135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:55]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins blanda mér inn í umræðuna með örfáum orðum um þetta mál til þess að fara yfir helstu þættina í því eins og það blasir við eftir fyrstu yfirferð. Almennt vil ég segja að sú þróun í löggjöfinni sem frumvarpið ber vitni um að á sér stað er að mörgu leyti skiljanlegt viðbragð við því að ekki hefur gengið sem skyldi að ná tilteknum markmiðum sem löggjafinn eða framkvæmdarvaldið hafa sett sér. Það á sérstaklega við um launajafnrétti sem virðist eiga lengra í land en ætla mætti og menn hefðu kannski vonað fyrir nokkrum árum þegar fyrst var verið að fitja upp á því að lögfesta ákvæði þar um í sérstaka lagabálka.

Ég tel það pólitískt markmið sem samstaða er um, að vinna að jafnrétti á þeim grundvelli sem lagður er í þessari löggjöf og í meginatriðum endurspeglast í frumvarpinu. Ég hygg að það sé ekki, a.m.k. ekki af hálfu okkar í Frjálslynda flokknum, gerður neinn ágreiningur um þau markmið.

Það hefði kannski verið skýrara í þessu máli að setja niður fyrir sér betur en gert er í greinargerð og lagatexta hvert raunverulegt markmið málsins er, hverju menn ætla sér að ná fram og fyrir einhvern tiltekinn tíma þannig að hægt væri að vega það og meta þegar þar að kemur hvernig til hefur tekist. Markmiðið er svolítið óljóst, kannski vegna þess að það er svo víðtækt, þá verður það ekki eins skýrt og nauðsynlegt er til þess að menn geti náð markmiði fyrr en ella væri.

Ég vil líka bæta við sjónarhorni sem ég hygg að ég hafi ekki heyrt í þessari umræðu sem er að orðið jafnrétti og jafnstaða á að mínu viti að skiljast örlítið víðtækar en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi og í lögum þar um. Mér finnst óþarflega þröngt sjónarhorn á þetta. Í þessum lagabálki er ekki tekið á misrétti sem viðgengst og mun halda áfram að viðgangast milli kynja og milli einstaklinga innan sama kyns. Ég vil nefna sem dæmi þá staðreynd að laun hafa lengi verið mishá eftir atvinnugreinum og landsvæðum. Þetta á sérstaklega við um almenna markaðinn en það er líka farið að bera á því á opinbera markaðnum að laun fyrir sambærileg störf eru misjöfn eftir búsetu. Jafnvel þótt viðkomandi sem sinnir þeim sé af sama kyni, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á einhverju tilteknu landsvæði utan þess.

Mér finnst þetta vera jafnréttisþáttur sem ekki eigi að undanskilja átaki stjórnvalda til þess að ná fram jafnrétti. Það er t.d. misrétti sem ekki er ástæða til að líða þegar konur í tilteknu starfi á almennum vinnumarkaði fá 10, 15 eða 20% lægri laun fyrir ákveðið starf ef þær búa á einhverjum tilteknum stað utan höfuðborgarsvæðisins miðað við það sem stendur til boða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er misrétti sem ég held að við ættum ekki að loka augunum fyrir og ættum að gera ráð fyrir í lögunum að reynt verði að taka á eftir því sem tök eru á.

Það er líka misrétti að þessu leytinu til eftir störfum, sérstaklega hjá hinu opinbera, og það er ekki tekið á því í frumvarpinu. Þar á ég fyrst og fremst við störfin sem falla undir kafla laganna um opinbera starfsmenn, um embættismenn. Þar segir í 20. gr. frumvarpsins sem ég hygg að sé sambærileg við gildandi ákvæði, með leyfi forseta:

„Starf sem laust er til umsóknar“ — athugið, sem laust er til umsóknar — „skal standa opið jafnt konum og körlum.“

Það hefur farið mjög vaxandi hjá hinu opinbera, ráðuneytum sérstaklega, að ráða fólk til starfa án auglýsingar inn í embættismannaklúbbinn. Svo hefur það líka farið vaxandi að þeir sem eru komnir inn í hann eiga aðgang að tilteknum störfum innan þess geira og eru handvaldir af viðkomandi ráðherra.

Nýlega var ráðinn ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu. Hann var handvalinn. Starfið var ekki auglýst. Hann var ráðinn úr utanríkisráðuneytinu, kominn inn í embættismannahópinn. Inn í hann komst hann, ef ég veit rétt, ég bið um að verða þá leiðréttur ef það er rangt hjá mér, inn í þann klúbb komst viðkomandi með beinni ráðningu án auglýsingar.

Þarna er auðvitað mikið misrétti þó að ekki sé hægt að þrengja það svo að það afmarkist við þann þrönga skilning sem hér er átt við í 20. gr. þá er þetta misrétti, bæði milli kynja og innan kyns. Þetta er ójafnrétti sem við eigum ekki að líða að sé fyrir hendi hvað þá að það fari vaxandi. Mér finnst þetta vera jafnréttismál líka, virðulegi forseti. Við megum ekki afmarka okkur svo að orðið jafnréttismál þýði bara þau tilvik þar sem hallar á konur í samkeppni við karla. Það er of þröngur skilningur, virðulegi forseti.

Það hallar líka á konur í samkeppni við konur sem komast hinn breiða veg inn í embættismannageirann til hinna háu embætta. Alveg eins og það hallar á karla í þeim samanburði við konur sem njóta þess eða öfugt sem auðvitað eru dæmi um líka. Við eigum að taka á þessu.

Við eigum að stöðva þessa persónubundnu ráðningaþróun ríkisins í jafnréttislöggjöf. Þeir eru ófáir ráðuneytisstjórarnir í dag sem hafa verið ráðnir til starfa með því að vera handvaldir, en þó ekki allir. Nýlegt dæmi er um að auglýst var eftir ráðuneytisstjóra í viðskiptaráðuneytinu, sem ég tel vera til fyrirmyndar og eins og á að gera. Mig minnir að það hafi verið auglýst eitthvert annað ráðuneytisstjórastarf, ég man ekki … (Gripið fram í.) já, sjávarútvegsráðuneytið, sem er nýtt ráðuneyti alveg eins og viðskiptaráðuneytið og ég hugsa að það hafi verið skýringin á því að það var auglýst, þ.e. að hér var um nýtt ráðuneytisstjórastarf að ræða. En ýmsir aðrir ráðuneytisstjórar hafa verið ráðnir án auglýsingar, í forsætisráðuneytinu, iðnaðarráðuneytinu, og ég gæti farið í fleiri ráðuneyti ef með þarf.

Þetta er ekki góð þróun. Hún vinnur gegn jafnrétti. Til hvers á fólk að vera að mennta sig, gera sig hæft til starfa af þessum toga, karlar og konur, ef það nýtur ekki neins jafnréttis í því að sækja um eða nálgast starfið? Ég tel að það sé hluti af jafnréttinu að hafa þessa hluti í lagi. Þetta er að riðlast og það er vaxandi tilhneiging og við eigum að stöðva slíka þróun.

Ég vonast til að víðtækur stuðningur sé við það hér í þinginu að taka á þessari öfugþróun í opinberri stjórnsýslu. Við höfum ekki skilgreint embættismenn sem pólitíska trúnaðarmenn ráðherra, öðru máli gegndi ef það væri gert og út af fyrir sig má hugsa sér að menn gerðu það og sú skoðun hefur heyrst að ráðuneytisstjórastarf ætti að fylgja ráðherra. En það hefur ekki verið ofan á, afstaða okkar hefur verið sú að hafa ráðuneytisstjórann sem embættismann, kjölfestuna í embættismannaliði ráðuneytisins sem sitji áfram þó að ráðherrar komi og fari. Þá á ekki að ráða ráðuneytisstjóra sem persónulegan aðstoðarmann viðkomandi ráðherra.

Það eru meira að segja dæmi um að ráðuneytisstjóri var látinn fara af því að sá sem var ráðherra á þeim tíma honum líkaði ekki við ráðuneytisstjórann. Það er heldur ekki gott. Það á heldur ekki að líða. Við ættum a.m.k. að koma þessum málum í lag á jafnréttisgrundvelli, nákvæmlega það sem við erum að ræða hér.

Ég velti líka ákvæðunum í 26. gr. fyrir mér, þ.e. hvort þingið eða löggjöfin ætti ekki að setja almenna stefnu um ráðningar þar sem svo háttar til í starfi eða atvinnugrein, sérstaklega hjá hinu opinbera, að það er meira af öðru kyninu, jafnvel yfirgnæfandi meira. Það er ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu, a.m.k. ekki fyrir ríkið, að það setji sér neina stefnu í því. Í sumum stéttum er yfirgnæfandi meiri hluti af öðru kyninu. Hjá ríkinu og í ákveðnum stéttum, t.d. í kennarastétt held ég að það séu nú oftar konurnar sem eru yfirgnæfandi. Þá spyr ég hvort ekki sé eðlilegt að löggjöfin segi, þegar svona háttar til að sett sé í lögin ákvæði sem vinnur að því að fjölga starfsmönnum af því kyni sem er mun færra af. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir því að móta slíka stefnu, heldur að sá sem auglýsi hafi það í valdi sínu hvort hann hafi þá stefnu eða ekki. Þetta getur skipt máli, t.d. ef sveitarfélögin sem ráða kennara á grunnskólastigi hafa ekki þá stefnu að reyna að jafna hlutföll kynjanna, þá eiga karlar og konur sem sækja um starfið jafna möguleika til þess að fá það og óheimilt væri að mismuna.

Ef menn hafa þá stefnu að það eigi að reyna að minnka muninn á milli kynjanna, það væri æskilegt markmið og ég hef skilið þessa löggjöf þannig að það væri hinn pólitíski undirtónn að það ætti að jafna, þá spyr ég af hverju við setjum það ekki inn í þetta frumvarp þannig að lögin vinni beinlínis að því að draga úr þessum mun í stað þess að láta það í vald auglýsandans hverju sinni. Eins og það er nú er það með þeirri heimild að auglýsandinn geti tekið ákvörðun og þá megi hann beita slíkri mismunun. Mér finnst skorta raunverulega stefnu til að fylgja málinu eftir í þessari lagagrein sem fjallar um bann við mismunun í starfi við ráðningu. Ég held að það sé miður. Þetta er þá ekki heilsteypt stefna frá upphafi til enda. Þá er eitthvert hik á mönnum við að framfylgja því sem er raunverulega undirstaðan fyrir löggjöfinni.

Ég get sagt eins og hér hefur komið fram, að eitt er að vilja og annað er hvað gerist. Ég er í hópi þeirra, kannski allra sem hér hafa talað, sem vilja hafa jafnrétti í launum og kjörum og bann við mismunun eftir kynjum í þeim efnum. En ég er satt að segja efins um að menn nái þeim árangri sem að er stefnt, ekki vegna þess að ég sé á móti því heldur hitt að þróunin á vinnumarkaði er á þá lund að það verður svo erfitt, ef ekki ógerlegt fyrir þann aðila sem á að beita sér fyrir því að bæta úr, að sanna að raunverulega sé um einhverja mismunun að ræða.

Kjarasamningar eru í vaxandi mæli hættir að vera ákvörðun um laun og ákvörðun um starf heldur er þetta að þróast yfir í það að einstaklingar gera sína kjarasamninga, semja um starfssviðið sem er þá breytilegt eftir einstaklingum og launin breytileg eftir þeim. Þá getur verið ákaflega erfitt fyrir aðila, sem ég hygg að sé Jafnréttisstofa í þessu tilviki, að geta sýnt fram á að einhver kynbundinn munur sé á launum. Því það eru svo mörg matsatriði í því og ég held að mönnum muni reynast það ákaflega þungt í skauti að komast með viðunandi hætti til botns í deilumálum um það.

Þróunin hjá hinu opinbera mun líka verða í þessa veru, það verður meira um persónubundna samninga sem leiðir til þess að það verður sífellt erfiðara að fylgja þessu ákvæði eftir. Ég er því ekki viss um að þau úrræði sem eru í löggjöfinni eða þær leiðir sem hafa verið farnar séu líklegar til að skila okkur fram á veginn til lengri tíma. Ég held að það þurfi að hugsa stöðuna og þróunina betur og velta fyrir sér hvaða leið er hægt að fara, hvaða lausn væri líkleg til að skila jöfnum kjörum í þeirri breyttu stöðu sem nú er. Ég er ekki viss um að sú leið sem hér um ræðir dugi vel til þess.

Kannski hefur hún dugað vel að vissu marki. Það er ekki svo gott að fullyrða um það því þá þarf að bera saman það sem var, miðað við það sem ekki hefur verið og það er aldrei gott að komast að óyggjandi niðurstöðu um slíkt. Kannski og vonandi hefur hún skilað okkur þeim árangri að munurinn hafi minnkað. En það er greinilegt að hann er enn þá fyrir hendi og virðist minnka mjög hægt á síðustu árum. Kannski er þetta úrræði komið að endamörkum þess sem það getur náð fram. Þess vegna set ég fram þessar hugleiðingar og efasemdir um þetta úrræði þótt í því felist ekki efasemdir um markmiðin.

Ég tek eftir því að frumvarpið er svolítið breytt frá því frumvarpi sem nefndin skilaði af sér til ráðherra og þar eru atriði sem er ástæða til að staldra við og athuga a.m.k. í nefnd og sumt af því hef ég efasemdir um að geti verið skynsamlegt fyrirkomulag. Það læt ég bíða umfjöllunar í nefnd og þar er tækifæri til að fara yfir þau atriði, virðulegi forseti.

Að lokum vil ég undirstrika almennan stuðning við markmiðin og að menn eigi ekki að láta deigan síga í þeim efnum en hvet til þess að jafnréttisumræðan verði á heldur víðtækari nótum en er að finna í þessu frumvarpi.