135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:15]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jafnréttismálin hafa verið margra ára vinna og þeirri vinnu er ekki lokið enn, ég get því ekki fallist á að það séu rök fyrir því að taka ekki upp þau sjónarmið í löggjöfinni sem ég bar fram.

Eins og frumvarpið er borið fram er óheimilt að mismuna kynjum í greiðslu fyrir sama starf sem unnið er á sama stað. En það er heimilt að mismuna konum í starfi, borga þeim lægri laun á litlum stað úti á landi en greidd eru fyrir sama starf í Reykjavík. Það er heimilt, það brýtur ekki í bága við þessi lög. Ég segi: Menn eiga ekki að horfa fram hjá stöðu þeirra kvenna sem búa við lakari kjör — og við þekkjum það úr vinnumarkaðskönnunum og kjararannsóknum síðustu áratugi að vandinn er til staðar og hefur farið vaxandi — við umræðu um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna.

Það má vera að menn séu ósammála því, það er eins og gengur, þess vegna tökumst við á og tölum saman í þinginu. Mér finnst þessir hagsmunir vera það ríkir að þeir verðskuldi að hinir pólitísku flokkar leggi sitt af mörkum til þess að bæta kjör þeirra sem búa við lakari stöðu að þessu leyti. Ég get ekki fallist á það, virðulegi forseti, að með því að tala fyrir þessum hagsmunum sé verið að drepa jafnréttismálunum á dreif.