135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:19]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mig vera þátttakanda í þeim leiðangri og mér finnst ástæðulaust af hv. þingmanni að dæma mig úr leik í honum fyrst ég vil ekki horfa á málið út frá sama sjónarhorni og hún að öllu leyti. Mér finnst hér vera réttur vettvangur til að ræða kjör fólks sem eru mismunandi eftir búsetu þó um sé að ræða sama starf.

Karlmaður sem starfar úti á landi fær lægri laun en kona í sama starfi í Reykjavík, um það eru mörg dæmi. Það er í lagi samkvæmt þessu. Það er ekki óheimilt. Það er bara óheimilt ef um er að ræða sama atvinnufyrirtæki. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvers vegna getur Samfylkingin ekki tekið upp merki þeirra sem búa við þessar aðstæður? Hvers vegna er málið afmarkað við þennan þrengri skilning? Um það er spurt. Þeir sem búa við þessar aðstæður hljóta að spyrja líka: Af hverju eigum við ekki vini í þessu máli í stjórnarflokkunum? Hv. þingmaður verður að gera grein fyrir því hvers vegna stjórnarflokkarnir telja ekki rétt að taka á því máli? (KaJúl: Það er viðfangsefni, bara ekki í þessu.) Það er ekki í þessu nei, hvar annars staðar, virðulegi forseti? Hvar annars staðar?

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður nefndi ekki mismuninn sem á sér stað í embættismannageiranum. Ég vænti þess að ég megi skilja þögn þingmannsins sem samþykki við sjónarmið mitt í því.