135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:23]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki fullyrða um það hvort áhrifin af umræddri lagabreytingu í sumar séu strax farin að koma fram, það má vera. Sú þróun sem ég var að gagnrýna hófst fyrir nokkrum árum og hefur átt sér stað síðan þá. Það má vera að lagasetningin í vor hafi verið til að skjóta tryggri lagastoð undir framkvæmdina og ég hef grun að svo sé, að menn hafi vitað að mjög ótraustur lagalegur grundvöllur væri fyrir þessari túlkun laganna sem hafði fyrst og fremst verið tekin upp við ráðningu í ráðuneytisstjórastöður. Ég vakti athygli á þessu máli því að ég held að nauðsynlegt sé að stöðva þessa þróun. Hún er óeðlileg, hún vinnur gegn jafnrétti sem er undirtónninn og grundvöllurinn að þessari lagasetningu. Við vitum svo sem ekki hvort hún hefur bitnað frekar á öðru kyninu en hinu, það er ekki gott að segja til um það. Ég ætla heldur ekki að halda fram neinu sérstöku um það. Ég segi bara: Hún bitnar á þeim sem hafa menntað sig til starfa af þessum toga og hafa áhuga á því að sinna þeim. Þeir fá ekki tækifæri til þess með eðlilegum hætti og við eigum að vinna gegn því ekki síður en að því markmiði sem lýst er í fyrirsögn frumvarpsins. Markmiðið er út af fyrir sig ágætt en mér finnst sjónarhornið á viðfangsefnið fullþröngt.