135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[15:56]
Hlusta

Frsm. meiri hluta viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um notkun raflagna og raffanga í núverandi ástandi á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónínu S. Lárusdóttur og Atla Frey Guðmundsson frá viðskiptaráðuneyti og Tryggva Axelsson og Jóhann Ólafsson frá Neytendastofu.

Frumvarpið var sent til umsagnar og hafa umsagnir borist frá Rafiðnaðarsambandi Íslands og Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf.

Frumvarp þetta er lagt fram í samræmi við fyrirmæli 28. gr. stjórnarskrárinnar í þeim tilgangi að staðfesta bráðabirgðalög frá 6. júlí sl. um notkun raflagna og raffanga í núverandi ástandi á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli. Aðdraganda að setningu bráðabirgðalaganna er að rekja til þeirrar ákvörðunar að taka íbúðar- og skólahúsnæði á varnarsvæðinu í notkun á þessu hausti. Raflagnir og rafföng þar voru hins vegar í samræmi við bandaríska staðla og uppfylltu ekki þær kröfur sem gerðar eru í íslenskum lögum og reglugerðum. Því var ljóst að skipta þurfti um allar raflagnir innan svæðisins. Um er að ræða viðamikið og kostnaðarsamt verkefni og var ekki talið unnt að koma raflögnum í rétt ástand áður en skólastarf hæfist á svæðinu, þ.e. fyrir haustið 2007. Af þeim sökum þótti brýn nauðsyn til að gefa út framangreind bráðabirgðalög.

Samkvæmt bráðabirgðalögunum er heimilt að nota raflagnir og rafföng á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli til 1. október 2010. Í lögunum er jafnframt mælt fyrir um að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. skuli leggja fram verkáætlun til Neytendastofu fyrir 1. október 2007 um hvernig staðið verði að breytingum til samræmis við íslenskar kröfur fyrir 1. október 2010. Þá er kveðið á um það í lögunum að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. skuli tilnefna umsjónarmann öryggismála á svæðinu sem starfi í samvinnu við Neytendastofu og að hann uppfylli hæfniskröfur sem gerðar eru í reglugerð um raforkuvirki, nr. 264/1971, með síðari breytingum.

Meiri hluti viðskiptanefndar telur gagnrýnisvert að þetta mál hafi ekki komið fyrr inn til viðskiptaráðuneytisins. Eðlilegra hefði verið ef málið hefði verið lagt fram á síðastliðnu sumarþingi og hlotið þar hefðbundna þinglega meðferð. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að gætilega sé farið með heimild 28. gr. stjórnarskrárinnar til setningar bráðabirgðalaga. Meiri hlutinn telur engu að síður að brýnt hafi verið að koma mannvirkjum á varnarsvæðinu í notkun og leggur jafnframt áherslu á að raflögnum og rafföngum þar verði komið í viðunandi horf sem allra fyrst. Í þessu sambandi má nefna að samkvæmt upplýsingum frá Neytendastofu er nú þegar búið að breyta raflögnum í 318 íbúðum af þeim 340 sem taka á í notkun í fyrsta áfanga eða um 94% af íbúðarhúsnæðinu. Framkvæmdirnar ganga þannig mun betur en áætlað var í fyrstu og verður að öllum líkindum lokið fyrir 1. október 2010.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta meirihlutaálit rita Ágúst Ólafur Ágústsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Valgerður Bjarnadóttir, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Björk Guðjónsdóttir og Jón Gunnarsson.

Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.