135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:27]
Hlusta

Frsm. minni hluta viðskn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Svo er sagt að sannleikanum verði hver sárreiðastur. Ég heyri ekki betur en að hv. þingmanni svelli mikill móður yfir þeirri gagnrýni sem hann hefur fengið á sig fyrir þessi vinnubrögð.

Það er alrangt að ekki hafi verið hægt að klára þetta fyrir 1. september. Neytendastofa krafðist þess í nóvember 2006 og það var ekkert gert. Framkvæmdarvaldið brást, viðskiptaráðherra. Hann átti að bregðast við. Það var ekkert mál að klára þetta fyrir 1. september með því að setja kraft í þetta. Ég get alveg tjáð hv. þingmanni það að ef við vinstri græn hefðum verið við stjórnvölinn væri þetta verk löngu búið.

Það er ákveðin þversögn í áliti meiri hlutans þegar sagt er að það beri að fara varlega við setningu bráðabirgðalaga. Það beri að fara mjög varlega. Auðvitað er það vegna þess að stjórnarskráin á að njóta vafans. En það er farið eins óvarlega í þessu máli og hægt er að hugsa sér.

Hvað verður næst? Hvaða fordæmi er verið að gefa? Ef peningaskortur Þróunarfélagsins ræður allt í einu löggjöf á Íslandi eða skortur á iðnaðarmönnum, hvað næst? Á þá að manna skip með bráðabirgðalögum? (GMJ: Það hefur oft verið gert.) Það er verið að setja fordæmi, grafalvarlegt fordæmi. Það var auðvelt að kalla saman þing og það var enn auðveldara að afgreiða þetta mál á sumarþingi.