135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:45]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þó að það komi þessu máli kannski ekki endilega við hrökk ég við ummæli hv. þingmanns um arfakónginn og ég vil benda honum — og svo sem fleirum — á að sumt fólk vill stroka út fortíðina. Það vill breyta henni jafnvel og láta hana ekki hafa gerst. Hún hefur samt gerst. Hún var þarna og mér finnst einmitt skjaldarmerki Danakonungs merki um það að hann hafi einu sinni komið við sögu Íslands. Við strokum hann ekkert út. Mér finnst mjög gott að hafa þetta skjaldarmerki þarna til að minna okkur á að hann var einu sinni arfakóngur Íslands. Við gleymum ekki og þurrkum ekki út fortíðina (Gripið fram í.) og við breytum henni alls ekki. (Gripið fram í: … arfakóngur …) Það er nefnilega eitt sem við ættum kannski að átta okkur á, við breytum ekki fortíðinni.