135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:23]
Hlusta

Frsm. meiri hluta viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugaverð umræða, hún snýst um grundvallaratriði og við ræðum kannski ekki oft um stjórnarskrána í þessum sal. Mig langar í seinna andsvari mínu að svara spurningu hv. þingmanns um hvort bráðabirgðavaldið væri í höndum aðila úti í bæ. Að sjálfsögðu er það ekki þannig. Bráðabirgðamatið er hjá framkvæmdarvaldinu, forsetinn setur lögin og síðan staðfestir þingið eða synjar bráðabirgðalögunum.

Að sjálfsögðu geta aðstæður kallað á notkun þessara heimilda í stjórnarskránni og við metum það hverju sinni hvort þær aðstæður gera það. Við metum að svo hafi verið í þessu tilviki.

Það er vert að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að þegar við síðast ræddum þessi mál, þegar lögum um lax- og silungsveiði var breytt, þá studdi hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson staðfestingu bráðabirgðalaga. Þá mat hann það væntanlega sem svo að einhver ástæða hefði verið fyrir því að setja þau bráðabirgðalög. Hv. þingmaður studdi það mat sem átti sér stað á þeim tíma.

Við þurfum að sjálfsögðu að fara yfir hvert mál fyrir sig. Við getum ekki alhæft á þann veg að þó að við séum á móti setningu bráðabirgðalaga í eitt skipti séum við þar með alltaf á móti því að slík lög verði sett. Rétt eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson studdi setningu bráðabirgðalaga fyrir nokkrum missirum en er nú augljóslega á móti því, hann hefur væntanlega metið það sem svo að þessi mál væru ólík, alveg eins og Samfylkingin hefur gert í þessu máli.

Þannig að ég ítreka að matið er hjá þeim aðilum sem ég gat hér um áðan. Ég hef nú einnig vitnað í hæstaréttardóm frá árinu 1995 á blaðsíðu 2417. Þar stendur hjá meiri hluta hæstaréttar: „Skilyrði stjórnarskrárinnar um brýna nauðsyn hefur í lagaframkvæmd hér á landi verið skýrt rúmt.“

Að þessu sögðu tek ég undir að við þurfum að fara mjög varlega með þessa heimild enda tel ég að löggjafinn hafi gert það undanfarin ár. Og síðan hefur Hæstiréttur metið það svo að dómstólar hafa rétt á (Forseti hringir.) að meta hvort setning bráðabirgðalaga sé andstæð stjórnarskrá eða ekki. Þetta er mjög skýrt í mínum huga.