135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:25]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði haft gaman af því að vera fluga á vegg á þingflokksfundi Samfylkingarinnar þegar þetta mál var rætt væntanlega núna á haustdögum. Þá hefur varaformaður Samfylkingarinnar skipst á skoðunum við hv. þingmenn Lúðvík Bergvinsson og Helga Hjörvar. Það hefur sjálfsagt ekki verið neitt biblíutal á þeim fundi ef miða má við ummæli þingmannanna frá því fyrir fjórum árum, þá var að þeirra mati ekki rétt að setja bráðabirgðalög.

Ráðherra segir hér, og það kemur fram í nefndarálitinu, að það sé ámælisvert af hálfu þeirra sem fara með málið að hafa ekki komið með málið til stjórnvalda fyrr. Það er tilefni til þess að gefa út bráðabirgðalög. (Gripið fram í.) Ég skal koma að því.

Þessi rökstuðningur getur ekki gengið, virðulegi forseti. Að ráðherra og þingmeirihluti segi að tilefni til að setja bráðabirgðalög, og tilefnið sé brýnt, sé vegna þess að aðilinn sem í hlut á hafi komið of seint fram með málið. Það þarf eiginlega ekki að fara yfir það, það geta ekki verið rök fyrir því að það stofni hjá viðkomandi ráðherra rétt til að setja bráðabirgðalög. Ég vona bara að við þurfum ekki að deila um það neitt frekar.

Ég flutti ræðu um bráðabirgðalögin 2003 í löngu máli og ítarlegu. Ég skrifaði grein um það sem ég birti í Morgunblaðinu um sumarið 2003 og gekk gegn landbúnaðarráðherra. En bráðabirgðalagafrumvarpið tók mjög miklum breytingum. Gerðar voru átta breytingartillögur á því þannig að um var að ræða allt annað frumvarp sem kom til atkvæða en þau lög sem sett voru á sínum tíma og það er mikið umhugsunarefni fyrir þann ráðherra sem þá sat.