135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:27]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Herra forseti. Ég náði ekki að vera viðstaddur 1. umr. málsins þegar það var tekið fyrir hér fyrir viku eða tíu dögum en vissulega var málið líka hér til umræðu í sumar og í sjálfu sér hefur það verið til umræðu nokkuð lengur og á sér ákveðna forsögu, það á sér alveg 50, 60 ára forsögu líkt og hv. þm. Grétar Mar Jónsson kom að í andsvari sínu fyrr í dag varðandi veru bandaríska hersins og tækjabúnað og tól sem hann var með á Keflavíkurflugvelli.

Þingmenn fara nokkuð geyst í þessari umræðu um afleiðingar eða ákveðin prinsipp varðandi bráðabirgðalagasetningu. Mér sýnist að við 1. umr. hafi menn og svo aftur í dag aðallega verið að fjalla um nauðsynina á því að setja bráðabirgðalögin og hafa farið í gegnum það ferli. Ég ætla ekki að blanda mér í það því að menn eiga það til, hv. þingmenn jafnt sem hæstv. ráðherrar, að vitna til skólabókanna sinna og þeirra sem kenndu þeim og ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég hef einungis lokið tveimur einingum í lögfræði en það var Jóhannes L. L. Helgason sem kenndi mér lögfræði og það nám snerist aðallega um samningagerð og útboð fyrir okkur verkfræðingana. Ég ætla þess vegna ekkert að opinbera mig í því hér að hafa ekki jafnvíðfeðma reynslu og margir kollegar mínir á þinginu sem alla jafna vitna til ákveðinna félaga sinna í greininni.

Ég ætla hins vegar að horfa örlítið til verkefnisins á Keflavíkurflugvelli og þá hins tæknilega. Ég hef spurt sjálfan mig að því og aðra líka og vonandi kemur það fram a.m.k. fyrir 3. umr. hvers vegna setja þarf þessi lög því að mér sýnist að einungis sé um að ræða reglugerðarákvæði og þar af leiðandi hefði hæstv. ráðherra væntanlega verið í lófa lagið eða heimilt að breyta þeim reglugerðum sem tengjast þessu máli. Hugsanlegt er þó að einhver ákvæði í lögum um raforkuvirki kveði á um að þetta skuli vera með þeim hætti sem hér er rætt um á Keflavíkurflugvelli. Það er ljóst að varnarsvæðið var á sínum tíma á einhvers konar undanþáguákvæði eins og mjög margt annað á Keflavíkurflugvelli. Við getum nefnt sem dæmi skráningar á ökutækjum en eins og menn muna skiptist ökutækjaflotinn þar í tvennt, annars vegar þau ökutæki sem varnarliðið sjálft hafði og voru hvorki skráningar- né skoðunarskyld samkvæmt íslenskum lögum, og hins vegar ökutæki sem starfsmenn áttu en þau voru hvort tveggja skráningar- og skoðunarskyld og féllu undir íslenska löggjöf og kröfuskjöl og reglur. Í hinu tilfellinu var þó heimilt aka hinum bandarísku ökutækjum sem varnarliðið átti um íslenska vegi og ekkert sett út á í þeim efnum þó svo að þau hafi ekki farið mikið um.

Þar af leiðandi væri ágætt að fá það upplýst hvort nóg hefði verið að breyta einfaldlega reglugerð en ég hlýt að skilja það svo að viðskiptaráðuneytið sem heldur utan um Neytendastofu sem fer með málefni bæði raflagna og raffanga hafi litið þannig á að nauðsynlegt væri að gera breytingu á lögum eða þá eins og í þessu tilfelli að setja ný lög.

Ég vil horfa örlítið til baka í þessum efnum. Hv. þm. Atli Gíslason nefndi að viðskiptaráðherra hefði í sjálfu sér átt að vera búinn að vinna að þessu máli. Það er að vísu ekki rétt því að eins og við munum, hv. þm. Atli Gíslason, var utanríkisráðuneytið með þetta verkefni á sinni könnu og fékk það verkefni. Þáverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, mátti koma hér í ræðustól og biðjast afsökunar, eins og þingheimur man, í nóvember 2006 þegar kom upp leki í þessum eignum á Keflavíkurflugvelli. Mig minnir að leki hafi komið upp í um 100 eignum á þeim tíma og varð frægt þegar hæstv. þáverandi utanríkisráðherra baðst afsökunar á þessu og óskaði eftir að gerð yrði úttekt á málinu.

Hins vegar hefur verið ákveðið að félag taki yfir þessar eignir, svokallað þróunarfélag í eigu ríkisins, einkahlutafélag, og um leið eignast einkahlutafélagið eða hefur umsjón með dreifikerfinu á raforkunni og vatninu og fráveitunni og af því að það tengist öðrum ágætum málum sem rætt er um í íslensku þjóðfélagi og jafnvel í þingsölum, þá er það í sjálfu sér þetta einkahlutafélag sem heldur utan um dreifikerfin þó að umrætt einkahlutafélag sé í eigu ríkisins. Þetta einkahlutafélag fékk í raun og veru allar eignirnar í sína umsjá og síðan hefur það verið starfandi, en um er að ræða gríðarlegt magn af byggingum sem flokkaðar eru í nokkra flokka. Það eru að vísu ekki allar byggingarnar þarna, ákveðnum byggingum var haldið til haga fyrir Flugumferðarstjórn o.fl., en um er að ræða um 320 þúsund fermetra og menn sjá að þetta er auðvitað gríðarlegt byggingarmagn. Félagið, sem stofnað var í október 2006, tók við þessum eignum í desember sama ár og eins og kom fram voru íbúðirnar á þessu svæði yfir tvö þúsund auk þess sem á svæðinu voru 4.000 fermetra sjúkrahús, tveir grunnskólar og íþróttamiðstöð með 25 metra yfirbyggðri sundlaug, kirkja og iðnaðarhúsnæði svo fátt eitt sé nefnt.

Það kom fram strax og Þróunarfélagið var komið með þessa umsjón að taka þyrfti út eignirnar strax en þá var vatnslekinn kominn fram, að afmarka þyrfti lóðir og í raun og veru koma þessum eignum inn í íslenskt samfélag — ég veit að þeir sem þekkja til sveitarstjórnarmála gera sér grein fyrir um hve viðamikið verkefni er að ræða — setja hitaveitu- og rafmagnsmæla í hvert hús en það hafði auðvitað verið gert á varnarsvæðinu á sínum tíma. Ég þekki það þar sem ég sit í stjórn Hitaveitu Suðurnesja að hitaveitan seldi bara einum aðila þarna sem tók við heita vatninu og síðan rafmagninu og það kom einn tékki frá einum aðila. Í þessu tilfelli er verið að hluta þetta svæði upp til margra eigenda og það er enn þannig í dag að það er að mestu einn aðili sem borgar rafmagnið og heita vatnið. Ég veit ekki hvernig farið er með kalda vatnið, ég geri ráð fyrir að það sé greitt á sama hátt en eins og menn vita þá er kalda vatnið á þessu svæði eins og víða annars staðar ákveðin prómill af fasteignamati og nú eru þessar eignir rétt að detta inn í fasteignamatið. Þetta er vissulega flókið verkefni og ég hef í sjálfu sér gagnrýnt svolítið uppleggið á því. Ég sagði á sínum tíma þegar verið var að skoða þetta að menn hefðu átt að fara allt öðruvísi að, menn áttu að setjast niður og fara yfir eignirnar og flytja þær yfir í íslenskt samfélag því sem næst og í samræmi við einhverja áfangaskiptingu sem jafnvel þingið og sveitarfélögin hefðu orðið sammála um. Bent var á það strax að eftir væri að skoða mörg tæknileg atriði svo sem raflagnir.

Í desember 2006, fyrir ári síðan, telja menn í Þróunarfélaginu að það sé einn af grunnþáttunum að línurnar verði mjög skýrar og menn ætla sér í sjálfu sér að ná þessu öllu fram. En takið nú eftir, þrátt fyrir að stofnað hafi verið þróunarfélag til að koma eignunum úr hernaðarlegri notkun í borgaralega þá var hugsunin sú á þessum tíma að íbúðarhúsnæðið yrði ekki sett á markað að sinni og að tryggja ætti jafnvægi í samfélaginu á Suðurnesjunum með þessu verkefni. Síðan gerast hlutirnir á þann veg að þegar fram komu hugmyndir um háskólasetur með þar af leiðandi alla afleidda þjónustu eins og leikskóla, grunnskóla og annað, notkun á íþróttahúsi og væntanlega sundlaug — ég þekki nú ekki hvað farið er að nota af því — þá vilja menn koma upp námsmannaíbúðum og það þýðir einfaldlega að húsnæðið og allt þarna er að fara í borgaralega notkun.

Menn geta líka sett spurningarmerki við það að strax haustið 2006, þegar starfsemi hersins var að fjara út, lá ljóst fyrir að af hálfu öryggissviðs Neytendastofu voru ýmsar athugasemdir sem menn bentu utanríkisráðuneytinu og síðar Þróunarfélaginu á. Raflagnir þarna væru ekki í samræmi við aðrar raflagnir á Íslandi. Líkt og einstaka þingmenn hafa bent hér á í dag erum við vissulega búin að hafa viðamikinn tíma til að fara fram með þetta verkefni og það sem ég hef verið svolítið gagnrýninn á er að kannski hafi ekki verið gert nákvæmlega það sem hefði mátt gera. Ég get alveg tekið undir spurningar hv. þm. Atla Gíslasonar: Ætlum við að horfa upp á að þarna verði einhvern veginn öðruvísi starfsemi en í íslensku samfélagi með hliðsjón af því regluumhverfi sem við erum að búa til um þetta allt til 1. október 2010? Er ekki einfaldlega svo að í þeim upplýsingum sem nefndin hefur fengið um að búið sé að laga 94% af þeim íbúðum sem komnar eru í notkun, gleymist að benda á, líkt og kemur fram í ræðu hæstv. viðskiptaráðherra, að þær eru með tvöfalt kerfi í dag? Menn eru að nota gömlu tækin sem herinn skildi eftir, menn eru að nota ísskápa, eldavélar, þvottavélar og þurrkara og ýmislegt annað í íbúðunum og í raun og veru er verkefnið ekki eins langt komið og þessar upplýsingar segja til um.

Ef það er svo, ágæti þingheimur, að búið sé að skipta í 94% íbúða á svona stuttum tíma, þá held ég að það sé alveg ljóst að við getum hætt við að koma restinni af eignunum í notkun og klárað að skipta um þar sem eftir er og trimma síðan hinar eignirnar inn. En þá vil ég spyrja með hliðsjón af þeim upplýsingum sem komið hafa fram, sem Þróunarfélagið hefur sent fjármálaráðuneytinu og ráðuneytið sendi síðan fjárlaganefnd vegna yfirferðar á fjárlögum fyrir næsta ár, en eins og hv. þingmenn hafa tekið eftir kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að flytja á fjárlagaumsýslu Þróunarfélagsins frá utanríkisráðuneytinu yfir á fjármálaráðuneytið frá og með næstu áramótum, samkvæmt þessum upplýsingum varðandi umræddar 200 eignir er nú þegar búið að selja um 73%. Það á ekki einungis við vöruskemmur og þjónustuhúsnæði og annað sem rætt var um í byrjun heldur er líka búið að selja umræddar fjölskylduíbúðir, einstaklingsíbúðir og ýmislegt annað. Nú er ljóst að Þróunarfélagið er búið að selja annaðhvort einstaklingum eða einkahlutafélögum ákveðnar eignir á Keflavíkurflugvelli og þá hlýt ég að líta svo á að þegar lögaðilar eru komnir með þær eignir verði þær þinglýstar á viðkomandi, menn fari að borga af þeim fasteignaskatta og lóðarleigu og síðan umrædd gjöld eins og hér hefur verið minnst á, vatnsgjald og holræsagjald, og svo koll af kolli. Stór hluti af þessum eignum er ekki íbúðar- eða skólahúsnæði. Því spyr ég: Hvernig má það vera að umrædd lög séu þannig að einungis sé verið að undanþiggja íbúðar- og skólahúsnæði á fyrrum varnarsvæðinu en allt atvinnuhúsnæði og annað eigi hins vegar ekki að fara í notkun á 110 voltum heldur væntanlega strax á 220? Þá má líka spyrja: Eru væntanlegir kaupendur sem hafa verið að kaupa og fjárfesta í þessum eignum fullvissir um það þegar þeir kaupa umrætt atvinnu- og iðnaðarhúsnæði, sem skiptir tugþúsundum fermetra og skiptir hundruðum milljóna í viðskiptum, að það uppfylli ekki umræddar reglur og að umrætt lagafrumvarp sem hér er til 2. umr. muni ekki ná til þess? Því það er alveg skýrt, og þá vísa ég aftur til þess ástands sem skapaðist í sumar og umræðan hefur aðallega snúist um, að grunntónn laganna er sá að skapa þeim íbúum sem voru að flytjast inn á svæðið í íbúðarhúsnæði tækifæri til að flytjast þar inn og fá í raun og veru undanþágu frá umræddum raforkureglum og líka til þátttöku í grunnskóla- og leikskólastarfi. Ég get ekki séð í umræddum lögum að þetta nái yfir allt atvinnu- og iðnaðarhúsnæði sem er á Keflavíkurflugvelli.

Ég set því stóran fyrirvara við þetta umrædda frumvarp og ég ætla ekkert að vísa til þess af hverju það var lagt fram í sumar. Ég hef spurt sjálfan mig: Var ekki nægilegt að setja reglugerðarákvæði og sveigja þetta þannig til? Ég hef líka spurt sjálfan mig: Ætlum við að horfa upp á það núna að íbúðar- og skólasvæðið eða eignir á fyrrum varnarsvæðinu verði það sem ég hef stundum lýst sem ríki í ríkinu, því að í sjálfu sér hafa þessar eignir verið fljótandi frá því að herinn gaf okkur þær, ef við getum tekið svo til orða, eða skildi eftir, sumir segja að það hafi verið bjarnargreiði en alla vega tókum við við þeim? Ég hef sagt að þetta sé ákveðið ríki í ríkinu en ég vil ekki sjá að við séum að búa til tvö ríki á þessum stað, annars vegar það sem snýr að íbúðar- og skólahúsnæði og hins vegar það sem snýr að atvinnu- og iðnaðarhúsnæði. Ég veit til þess að iðnaðarmenn hafa verið að vinna á fullu í þessum málum og að Hitaveita Suðurnesja vinnur að því að reyna að ná samningum um að ná dreifikerfinu, fráveitukerfinu, vatnsveitukerfinu og heitavatnskerfinu til að geta farið inn með mæla, að geta í raun og veru farið aftur inn og sagt að það vanti heimtaugagjaldið og sett þetta svæði að fullu inn í íslenskt samfélag. Ég veit að það er vissulega vilji til að gera þetta en ég spyr hins vegar sjálfan mig að því, ef þessar upplýsingar eru eins og hér hefur komið fram og menn fengu upplýsingar um í nefndinni, hvort ekki sé rétt að staldra við, klára það sem komið er í borgaralega notkun og velta því síðan fyrir sér hvernig trimma eigi inn hinar eignirnar. En það er ljóst að ég set stóran fyrirvara við þetta lagafrumvarp.