135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:47]
Hlusta

Frsm. meiri hluta viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. viðskiptaráðherra var talið að núverandi ástand mundi ekki uppfylla íslensk lög og þar af leiðandi þurfti að breyta lögum til að bregðast við. Það hefði ekki nægt að breyta reglugerð.

Það er einnig rétt, eins og hv. þingmaður kom inn á, að annar áfangi er allt annað en fyrsti áfangi. Ég gat aðeins um þetta í andsvari mínu hér áðan. Einungis fyrsti áfangi er kominn svo langt, 94% af honum er lokið. Að því loknu er talað um annan áfanga en gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að í heildina fari þrjú ár í þetta en menn binda vonir við að sá tími verði styttri.

Varðandi atvinnuhúsnæðið eru þetta áhugaverðar umræður. Samkvæmt upplýsingum frá Neytendastofu ber umsjónarmaður öryggismála, sem var skipaður á grundvelli þessara laga, einnig ábyrgð á öllu atvinnuhúsnæði. Hitaveita Suðurnesja ber hins vegar ábyrgð á raforkudreifikerfi svæðisins.

Samkvæmt greinargerð og verkáætlun, sem Þróunarfélagið hefur lagt fram til Neytendastofu, verður umbreyting raflagna í byggingum, þar með talið atvinnuhúsnæði og rafdreifikerfi, á svæðinu til samræmis við íslenskar reglur á rafmagnsöryggissviði með eftirfarandi hætti.

Í upplýsingum frá Neytendastofu kemur fram að svæðinu var skipt í fimm svæði. Á fyrsta svæði eru öll húsin í eigu annarra aðila en Þróunarfélagsins. Á öðru svæðinu eru flestar byggingar íbúðarhúsnæði, þó eru þar verslanir, skóli og íþróttahús. Engin starfsemi fer fram á matsölustaðnum á þessu svæði og þarna á að ljúka verki árið 2009. Á þriðja svæði er hluti af skrifstofum og kennslurými fyrir háskólasetrið. Á fjórða og fimmta svæði er atvinnuhúsnæði ekki í neinni notkun.

Þau skilaboð komu frá Neytendastofu að unnið hafi verið að brýnum endurbótum í því skyni að taka húsnæðið til notkunar í þeim tilvikum sem það á við. Auk þess sést á þessari samantekt að áfram er stefnt að því að gera enn frekari úrbætur á atvinnuhúsnæði á öllu (Forseti hringir.) fyrrum varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli. Þannig að ég geri ráð fyrir að um atvinnuhúsnæði verði að fara að lögum eins og rétt er.