135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:57]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Grétari Mar Jónssyni fyrir þessar upplýsingar. Vissulega þekki ég vel til mála á Keflavíkurflugvelli og það er kannski þess vegna sem ég beiti mér eins og raun ber vitni. Ég vil einfaldlega fá úr því skorið hvernig hlutunum á að vinda fram á þessu svæði. Ég hef talið eðlilegt að þessum eignum sé komið í borgaraleg not og er ekkert að setja mig upp á móti þeirri starfsemi sem þar fer fram, ekki frekar en Rafiðnaðarsamband Íslands hefur vikið að. Þrátt fyrir að þeir hafi alvarlegar athugasemdir við lagafrumvarpið setja þeir sig ekki upp á móti starfseminni.

Það sem skiptir mestu máli er að jafnræði sé á markaði í þessu eins og öðru. Ég hélt um tíma að hv. þm. Grétar Mar Jónsson mundi ljúka ræðu sinni með slagorði sínu: Allan fisk á markað.

En það gerði hann ekki. Hann benti á, eins og ég hef gert, að svæðið er margflókið og þar er ákveðin starfsemi sem tengist t.d. flugumferð og öðru. Við þekkjum það varðandi starfsemi flugumferðarstjórnar á svæðinu. Slökkviliðið er í ákveðinni starfsemi og heyrir þar undir. Þess vegna skiptir verulegu máli að horfa á málið í heild sinni og gera sér grein fyrir því að ríkið þarf að stíga fram og setja sig inn í þessi mál. Ég vona að við fáum eitthvert yfirlit yfir starfsemi Þróunarfélagsins áður en langt um líður þannig að við getum verið upplýst um það. Um er að ræða gríðarlegar fjárhæðir til að mynda í fjárlagafrumvarpinu, fjárhæðir sem skipta hundruðum milljóna króna.