135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:18]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, mínum gamla skólabróður, fyrir að skjalla mig svona varðandi þekkingu mína. Það má vel vera að ég sé oft að deila henni með öðrum og þá er alla vega líkt með okkur farið, mér og hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, að við erum gjarnir á það að láta fólk vita af því hvað við kunnum. Ég held að það eigi jafnt við um flesta sem starfa með okkur á þeim vinnustað sem við vinnum á. Nóg um það.

Ég vil einfaldlega segja, líkt og ég sagði í ræðu minni, að ég hef sett ákveðinn fyrirvara við þetta frumvarp og ætla að afla mér frekari upplýsinga áður en það kemur til lokaatkvæðagreiðslu og hef upplýst aðila um það. Afstaða mín byggist hugsanlega meira á hinu tæknilega. Ég hef í sjálfu sér ekkert farið inn í umræðuna um setningu bráðabirgðalaganna heldur fyrst og fremst fjallað um hið efnislega í lögunum.

Ég vona fyrst og fremst að umrætt jafnræði skapist á markaði varðandi eignirnar á vellinum, á fyrrum varnarsvæðinu, og það er það sem skiptir máli. Þegar við tökum jafnmargar eignir, 300 eignir, hátt í 2.000 íbúðir og tugþúsundir fermetra, eins og ég nefndi áðan, 300 þús. fermetra, þarf auðvitað að vera jafnræði milli þeirra eigna og annarra í samfélaginu og fyrir því er ég að tala í ræðu minni.