135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:22]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur algerlega misskilið málflutning okkar. Við styðjum að sjálfsögðu þessa uppbyggingu og það er alrangt að við hefðum viljað grípa til einhverra aðgerða til að koma í veg fyrir hana. Við höfum bara sagt að það hafi verið óþarfi að setja þessi bráðabirgðalög. Og þingmaðurinn hefur ekki svarað þessum spurningum enn þá: Hvað lá svona á að setja bráðabirgðalög? Hvað kom í veg fyrir að Alþingi væri kallað saman til að setja þessi lög?

Það bar brýna nauðsyn til að setja lög, segir hv. þingmaður, en það var ekki nauðsynlegt að kalla saman löggjafann til að setja þessi lög. Hvernig gengur þessi málflutningur upp í huga jafnaðarmannsins? Hvernig má það vera að brýna nauðsyn hafi borið til að setja lög en ekki að kalla saman löggjafann heldur nota gömlu leiðina með bráðabirgðalögum? Hvað kom í veg fyrir að Alþingi væri kallað saman í tiltekinni viku júlímánaðar og fengi þetta mál til meðferðar? Getur þingmaðurinn svarað því?