135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

aðgerðaáætlun um íslenskukennslu fyrir innflytjendur.

28. mál
[18:42]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Hér hreyfir hv. þm. Katrín Jakobsdóttir mjög mikilvægu máli. Hún fór víða um íslenskuna almennt og ég get tekið undir með henni sem unnandi íslenskrar tungu að áhyggjur af stöðu hennar fara vaxandi, bæði hvað varðar lestur, fjölbreytni í málnotkun og fleira slíkt sem ég held að við þurfum að bregðast við og það gleður mig mjög að hún skuli hafa tekið þetta mál upp hér. Eitt er það hvernig við tökum á íslenskunni sjálfri gagnvart okkar eigin þjóð og okkur sem höfum íslensku að móðurmáli og það er eitthvað sem við verðum náttúrlega að líta til núna og það var ánægjulegt hvað þingheimur brást vel við um daginn þegar við ræddum stöðu þjóðtungunnar íslenskunnar. Hér er til umræðu hin hliðin á málinu og það eru þeir hinir nýju Íslendingar, eins og sumir vilja segja, innflytjendur sem eru komnir til landsins og tala auðvitað ekki íslensku og í rauninni ekki endilega heldur þau önnur tungumál sem við tölum, svolítið forvitnileg og sérstök staða í raun og veru. Maður verður var við það æ oftar núna hvar sem maður kemur að maður getur hreinlega lent í vandræðum með að tala við fólk.

18 þúsund erlendir ríkisborgarar miðað við hagtölur 2006 er náttúrlega afar há tala, um það er ekki deilt. Töluvert af því fólki dvelur hér ábyggilega tímabundið en engu að síður um þó nokkurn tíma. Einhvern veginn þurfum við að átta okkur á því hvernig við bregðumst við því þegar fólk kemur til að dvelja það sem við köllum tímabundið en er hér samt kannski fjögur til fimm ár. Það lengi að við þurfum einhvern veginn að geta komið því að einhverju leyti inn í samfélagið. Þetta er stór hópur, fjölbreytilegur hópur og þegar við í svona litlu landi, litlu málsvæði fáum svona stóra hópa inn er nauðsynlegt fyrir okkur að bregðast við og hjálpa fólkinu að aðlagast.

Ég hjó eftir því í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni að þar segir, með leyfi forseta:

„Miklu skiptir í þessum efnum að kennsla í fjölmenningarfræðum sé fléttuð saman við kynningu á innlendri menningu.“

Ég hefði viljað sjá það hér og beini því til hv. menntamálanefndar þegar hún fær þetta mál til umfjöllunar — hverjar sem lyktir þess verða — að íslenskan og íslensk menning verði vart sundur skilin, íslensk menning er í rauninni rótin að íslenskunni, getum við sagt að ákveðnu leyti. Ég held að það sé ekki síður mikilvægt fyrir okkur þegar við erum að taka á móti fólki sem hér vill búa að við kynnum því og kennum því á íslenska menningu. (Gripið fram í.) Já, séum með kynningu á innlendri menningu. Það er eiginlega þetta orð „kynning“ sem ég er aðeins að velta fyrir mér í þessu.

Auðvitað þurfum við að læra á annarra þjóða menningarheima og það er vel að heimurinn blandist vel saman, en þegar svona stendur á eins og hjá okkur þá held ég að mjög mikilvægt sé að við höldum líka okkar eigin menningu hátt á lofti vegna þess að ég veit að það fólk sem hingað kemur hefur auðvitað áhuga á því að kynnast henni og við eigum að bera hana fram.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur lýst miklum vilja til þess að auka við íslenskukennsluna og eins og fram kom líka og hefur margoft komið fram í fjárveitingum til kennslu fyrir innflytjendur, þótt það sé alveg rétt að við höfum kannski svolítið verið að bregðast við aðstæðum sem breyttust mun hraðar en við áttum von á og því er full þörf á því að fara í frekari stefnumótun.

Það kemur reyndar fram í stjórnarsáttmálaunum, ég vil bara minna á það, með leyfi forseta:

„Unnin verði heildstæð framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem hafi það markmið að betur verði tekið á móti erlendu fólki sem flyst til landsins og því auðveldað að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og rækta menningu sína. Átak verði gert í íslenskukennslu fyrir útlendinga.“

Mér finnst mikilvægt að svo ákveðið hafi verið kveðið á um þetta í stjórnarsáttmálanum. Ég trúi því að þetta sé mál sem allir þingmenn hafi áhuga á að sé vandað til og í raun og veru þjóðin öll og ég fagna því að þetta sé til umræðu nú. Við verðum líka vör við það í þjóðfélaginu að íslensk fyrirtæki eru farin að bregðast við þeim fjölda útlendinga sem komnir eru til starfa með því að auðvelda fólki að fara á íslenskunámskeið og grípa til ýmissa ráðstafana til að hjálpa fólki. Það er náttúrlega mjög gott að svo sé og það er mín skoðun að fyrirtækin sjái líka sjálf hag sinn bestan í því, þannig að við skulum ekkert gera lítið úr því að hinn almenni markaður er viljugur til þess að koma að þessu máli og taka þátt í því.

Varðandi móðurmálsþáttinn vil ég einnig draga fram annað atriði í greinargerðinni sem mér finnst áhugavert. Þar er bent á að eitt sé að kenna íslensku sem móðurmál og annað þegar hún er kennd sem annað mál. Þarna held ég að sé grundvallaratriði á ferð. Við getum ekki notað sömu aðferðir og við notum við móðurmálskennslu hér á landi gagnvart því fólki sem hingað er að koma. Það að háskólasamfélagið sé að bregðast við þessu með því að bjóða upp á nám í kennslufræðum er jákvætt en ég held að það sé mjög mikilvægt að við áttum okkur á því sjálf að við getum ekki kennt íslensku með sama hætti og hugsað það með sama hætti og við erum að gera gagnvart okkur sjálfum.

Að öðru leyti vona ég að menntamálanefnd skoði þetta mál vel og stöðu íslenskunnar almennt og hvet til þess að umræðan um þetta mikilvæga mál verði góð og vönduð og mun standa vörðinn ásamt hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur um að halda merki íslenskunnar á lofti.