135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

aðgerðaáætlun um íslenskukennslu fyrir innflytjendur.

28. mál
[18:49]
Hlusta

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Mig langar bara til að koma hér upp og segja frá því í stuttu máli að mér þykir þetta hið besta mál og ég styð það mjög eindregið, enda er það í samræmi við áform ríkisstjórnarinnar, ekki bara um átak í íslenskukennslu fyrir útlendinga heldur eins og segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, með leyfa forseta:

„Unnin verði heildstæð framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem hafi það markmið að betur verði tekið á móti erlendu fólki sem flyst til landsins og því auðveldað að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og rækta menningu sína.“

Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að þeir sem á annað borð velja að flytja hingað til þessa lands, sem er eins og við vitum ákaflega fagurt en líka kalt og hart eins og veðrið úti núna ber vitni um, séu í hjarta sínu Íslendingar og að taka beri vel á móti þeim. Sá sem hér stendur er einmitt alinn upp til hálfs af innflytjanda og þekkir þennan málaflokk af þeim endanum.

Það er kannski til marks um þann veruleika sem Íslendingar búa við í dag að ég hlustaði á viðtal í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni við hjúkrunarforstjóra á Selfossi, að ég held, þar sem nýverið var ráðinn pólskur læknir sem ekki talar íslensku og spurt var hvort boðið væri upp á túlkaþjónustu fyrir þá Íslendinga sem til hans leituðu. Svarið var að stefnt væri að því en líka að þessi læknir hefði þegar hafið íslenskunám. Það sem vekur kannski athygli er að hér á landi býr stór hópur fólks sem gæti hugsað sér að nýta þjónustu læknis sem talar einmitt pólsku. Það varð raunin á Selfossi og þar fylltust biðstofurnar af pólskumælandi fólki sem vildi nýta sér þjónustu þessa tiltekna læknis.

Ég vildi kannski bæta við einum punkti sem ég held að sé ákaflega mikilvægur inn í þessa þingsályktunartillögu og hann er að sú íslenskukennsla sem fram fer fari fram á vinnutíma, ég held að það sé afskaplega mikilvægt. Í mjög mörgum tilfellum vinnur fólk langan vinnudag, á fjölskyldu og börn og þarf að sinna þeim og þess vegna gæti verið mjög mikilvægt að stefna að því í samráði við atvinnurekendur að íslenskukennsla fari fram á vinnutíma.