135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

aðgerðaáætlun um íslenskukennslu fyrir innflytjendur.

28. mál
[18:53]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langaði að segja örfá orð um það þingmál sem hér er til umræðu og lýsa yfir almennum stuðningi við það. Að vísu eru fimm ára áætlanir umdeildar í sögunni og af þeim misjöfn reynsla en ég get fallist á að það sé frekar jákvæð reynsla af því að gera slíkar áætlanir hér á landi, sérstaklega í menntamálum, og ég held að það sé ekkert að því að gera slíkt í þessu máli. Reyndar er mikil þörf á að hið opinbera taki sér tak í þessu skyni, tungumálið er lykillinn að því að erlendir ríkisborgarar aðlagist íslensku samfélagi, tileinki sér viðhorf heimamanna, skulum við segja, skilji þau og svo gagnkvæmt, að þeir komi á framfæri sínum viðhorfum til þeirra sem hér eru fyrir, því að þau samskipti sem verða þegar stór hópur erlendra ríkisborgara flytur hingað eru auðvitað gagnkvæm eins og vera ber.

Ég tek eindregið undir markmið þessarar tillögu og bendi á það sem fram kemur í greinargerð að 100 milljónirnar sem ákveðnar voru fyrir síðustu áramót af þáverandi ríkisstjórn, undir nokkurri gagnrýni við aðstæðum sem þá voru orðnar nokkuð ljósar, hrukku skammt til að mæta þörfinni. Það þarf að verja töluvert miklu fé og mörgum sinnum 100 milljónum á hverju ári til þess að framboð á kennslu og aðgengi að henni fyrir erlenda ríkisborgara verði með viðunandi hætti. Við eigum að leggja okkur fram við að svo verði vegna þess að hitt er auðvitað líka slæmt að þeir verði lengi mállausir gagnvart þeim sem hér búa fyrir og tali ekki tungumál þeirra.

Annað sem líka hefur fylgt og borið svolítið á hér á landi og trúlega í ríkari mæli en í flestum öðrum ríkjum er að þeir sem hafa verið að vinna þjónustustörf og þjónusta Íslendinga á veitingahúsum eða öðrum slíkum stöðum hafa ekki getað talað íslensku og það eru auðvitað oft ástæður sem gera það að verkum að þessi aðstaða kemur upp og ekki ástæða til að finna að því, en þegar þetta er orðið í þeim mæli sem raun ber vitni finnst mér að menn eigi að leggja áherslu á að breyta því. Það er ekki eðlilegt og ekki ásættanlegt fyrir þá sem búa í íslensku málsamfélagi að geta ekki notað sína eigin tungu í samskiptum við ýmsa aðila.

Ég kom um daginn á hótel hér á landi og gat ekki talað við nokkurn mann nema á ensku, og þó að ég hafi ekkert á móti þeim sem tóku á móti mér og gerðu það vel finnst mér það samt ekki viðunandi aðstaða. Ég geri þær kröfur til þeirra sem veita þjónustu hér á landi að þeir bjóði viðskiptavinum sínum upp á að geta átt samskipti á íslensku, sem ég vona að sé kannski almennt viðhorf að svo eigi að vera, og þess vegna legg ég einmitt áherslu á að menn bregðist vel við tillögu sem þessari til að bæta úr og gefa fólki kost á að tileinka sér tungumálið, a.m.k. í nægilegum mæli til að geta gert sig skiljanlegt og skilið þá sem það á samskipti við á hverjum tíma.

Erlendis, í löndum eins og Finnlandi, er mér sagt að tali fólk ekki sæmilega finnsku fái það ekki vinnu á veitingastöðum eða hótelum þar sem það þarf að eiga samskipti við viðskiptavini. Þótt það sé alltaf matsatriði hvar línan liggur í þeim efnum held ég að Íslendingar hafi að mörgu leyti gengið mun lengra en menn telja ásættanlegt í nágrannalöndum okkar. Ég held að við eigum að kappkosta að koma því á að þeir sem stunda þessi störf, Íslendingar sem útlendingar, geti gert það á því máli sem er okkar tunga hér á landi, íslenskunni. Þó að það standi ekki í stjórnarskránni vænti ég þess að það verði enginn ágreiningur um að það er íslenskan.