135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

stjórn fiskveiða.

25. mál
[19:26]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Ásamt mér flytja þetta mál hv. þingmenn Grétar Mar Jónsson, Kristinn H. Gunnarsson og Jón Magnússon.

Í frumvarpinu er lagt til að íslenskum ríkisborgurum sem hafa tilskilin atvinnuréttindi til skipstjórnar annars vegar og vélstjórnar hins vegar — en eins og flestir vita er það svo að ef einn maður ætlar að stunda veiðar á bát þarf hann að hafa hvort tveggja, atvinnuréttindi til skipstjórnar og til vélstjórnar ef þess er krafist vegna stærðar vélar viðkomandi báts — verði veitt heimild til að stunda fiskveiðar á eigin bát með tveimur sjálfvirkum handfærarúllum á tímabilinu 1. apríl til 1. október ár hvert. Við leggjum til að þessi takmarkaða heimild verði bundin við að viðkomandi bátur megi eigi vera stærri en 30 brúttórúmlestir og að hann uppfylli einnig öll skilyrði um svokallaða sjálfvirka tilkynningarskyldu, þ.e. það eftirlitskerfi sem við höfum komið upp hér á landi, sjálfvirku eftirliti með skipum. Að sjálfsögðu skal báturinn hafa viðurkennt haffæri, sem sagt vera tekinn út af skoðunarmönnum eða Siglingastofnun ríkisins og hafa vottorð um að hann sé fullkomlega haffær og hafi allan þann búnað til að bera sem gerð er krafa um. Við segjum að á hverjum bát megi að hámarki vera tveir menn í áhöfn og að hámarksfjöldi svokallaðra sjálfvirkra handfærarúlla megi þá vera í mesta lagi fjórar rúllur á tvo menn. Í lagatextanum leggjum við einnig til að að fimm árum loknum verði reynslan af þessum veiðum skoðuð með tilliti til þess hvort setja eigi viðbótartakmarkanir umfram það sem við leggjum til hér í upphafi, sem er mikil takmörkun í sjálfu sér, viðbótartakmarkanir sem taki eingöngu til veiðisvæða bátanna eða fjölda veiðidaga sem við leggjum til að sé takmarkaður við 1. apríl til 1. október ár hvert. Enn fremur segir að veiðar þessara báta skuli ekki reiknaðar til aflamarks og ekki hafa áhrif á heildarúthlutun aflamarks til annarra fiskiskipa.

Í 2. gr. segir að þessi lög öðlist þegar gildi.

Það fylgir örstutt greinargerð með þessu máli sem ég ætla að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefur löngum verið réttur Íslendinga við sjávarsíðuna að fá að róa til fiskjar og útróðrajarðir voru líklegri til þess að brauðfæða fólkið og gefa tekjur en þær jarðir sem illa lágu við fiskislóð. Útróðraréttur var metinn sem verðmæti í jörðum og talinn til hlunninda. Í gömlum lögum var öllum tryggður veiðiréttur í fjörðum og flóum. Þannig orðað að rétt ættu menn til fiskveiði sinnar nema síldveiði sem öllum væri heimilt að stunda hvar sem væri. Landsmenn áttu þannig allir tryggan forgang til botnfiskveiða næst sínum byggðum. Með þessu frumvarpi verður þeim sem rétt hafa til þess að stjórna skipum veittur þessi veiðiréttur á nýjan leik.“

Hér er vitnað til gamalla laga í Lagasafninu sem kveða á um rétt heimamanna til veiða í fjörðum. Í 1. gr. þeirra laga segir eitthvað á þá leið að heimamenn eigi forgangsrétt til veiði í fjörðum sínum nema síldveiði sé. Sem segir einfaldlega það sem menn vissu og hafa lengi vitað að síldin gekk í firði án neins skipulags eða neinnar þeirrar vitneskju sem menn gátu verið vissir um, ekki einu sinni að hún gengi á hverju ári eða að hún gengi á hverju ári í sama fjörð eða sama landshluta. Við Íslendingar höfum á undanförnum árum séð þessa hegðun. Fyrir nokkrum árum, sennilega fyrir um tveimur áratugum gekk íslenska síldin nánast eingöngu í firði austan lands, austfirsku firðina, síðan hefur hún verið að breyta göngum sínum, reyndar kannski samfara breyttum sjávarhita hér við land og hefur nú undanfarin ár sést við Vestfirði og út af Breiðafirði og svo tók hún allt í einu upp á því í fyrra að ganga í Grundarfjörð og fylla þann fjörð svo af síld að eigi varð vært þar öðrum fiskum, ef svo má að orði komast, og dóu þar þorskar í kvíum hvort sem það var vegna súrefnisskorts vegna hinnar miklu síldargengdar eða af öðrum orsökum, nema hvort tveggja hafi verið.

Þetta er nú saga síldarinnar og þess vegna var það tekið fram í fornum lögum að allir landsmenn hvar sem þeir byggju ættu forgangsrétt til síldveiðinnar þó að landsmenn sem við firðina byggju ættu forgangsrétt til fjarðarveiði sinnar. Ég hvet hv. alþingismenn til að skoða íslenska lagasafnið að þessu leyti, það er fróðlegt að sjá hversu framsýnir menn voru hér fyrir mörg hundruð árum um að setja reglur um að fjarðarbúar ættu sinn rétt til fjarðarveiði.

Það er kannski sú staða sem uppi er í nútímaþjóðfélagi á Íslandi að nú eiga fjarðarbúar ekki lengur rétt til fjarðarveiði sinnar og eru settir á guð og gaddinn þegar svo vill til að þeir sem kvótaréttinn hafa fengið í sínar hendur ákveða að hætta starfsemi sinni og selja burtu þennan atvinnurétt sem öllum Íslendingum var áður markaður sérstaklega í sínum fjörðum og áttu forgang til. Þar var engum ætlaður meiri réttur en öðrum heldur voru allir jafnir til þeirrar veiði.

Í nútímalögum hefur mönnum verið fenginn sá forgangur að einn maður getur átt allan aflarétt í viðkomandi þorpi og allir aðrir mega standa á ströndinni og horfa á þegar skipin eru seld í burtu og aflarétturinn fer. Þetta er hin napurlega staðreynd íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins og það er hægt að nefna mýmörg dæmi um hvernig farið hefur fyrir byggðum sem hafa misst nánast allan sinn aflarétt, því miður er hægt að telja margar. Það er hægt að telja Raufarhöfn sem er búin að missa nánast allan sinn aflarétt, Kópasker, Flateyri núna síðast á þessu ári, Bíldudal, svo eitthvað sé nefnt af handahófi í þessu sambandi. Þetta er vandi byggðanna.

Við erum hér að leggja til að þessi réttur verði opnaður mönnum aftur en þó því aðeins að þeir sjálfir eigi sinn eigin bát og stundi sjálfir veiðar á honum. Það er ekki lagt til í frumvarpinu að þetta verði framseljanlegur réttur eða tilheyri öðrum, að aðrir geti gert bát út undir annan mann til þess að stunda þessar veiðar heldur skal eigandinn sjálfur nýta þennan rétt og heimildin er takmörkuð við hann, sem þrengir auðvitað þetta ákvæði mikið frá því sem ella væri eða frá því sem var þegar öllum var heimilt að róa til fiskjar hversu margir sem á bát voru.

Þetta gæti hins vegar orðið til þess, hæstv. forseti, að liðka verulega til varðandi þá stöðu sem komin er upp í hinum mörgu sjávarbyggðum. Að vísu nær leyfið samt sem áður ekki nema til tímabilsins 1. apríl til 1. október en samt sem áður mundi þetta auðvelda ýmislegt og jafnvel auðvelda atvinnusókn margra í þeim byggðum sem hvað lakast eru settar.

Við væntum þess, hæstv. forseti, að þetta mál fái jákvæða umfjöllun í nefnd. Menn geta auðvitað skoðað það að setja þessu einhver stífari takmörk en hér eru sett upp en menn mega samt ekki gleyma því að skilyrðin eru afar þröng. Í fyrsta lagi þurfa menn að eiga bát, í öðru lagi þarf hann að vera haffær og uppfylla öll skilyrði og skyldur, viðkomandi maður þarf að hafa skipstjórnarréttindi og hafa aflað sér þeirra, hann þarf að hafa vélstjórnarréttindi og hafa aflað sér þeirra og hann þarf að uppfylla öll ákvæði um íslenska sjálfvirka tilkynningarskyldu og öll önnur lög og reglugerðir, ásamt því að hafa björgunarbúnað og öryggisbúnað í viðkomandi skipi til þess að skipið teljist haffært. Það er því langur vegur frá því að hér sé verið að færa mönnum einhverja sérstaka gjöf. Hver sem vill nýta sér þetta þarf að leggja fram verulega fjármuni til að geta nýtt sér þennan takmarkaða rétt sem er þó einstaklingsbundinn og verður honum ekki að neinni féþúfu hafi hann ekki kraft og getu til þess að nýta sér þetta sjálfur.

Hér eru því miklar takmarkanir settar á atvinnufrelsið sem öllum fjarðarbúum var áður leyft að nota og áttu forgang til en við gerum það í ljósi þeirrar staðreyndar að hér eru í gildi lög um stjórn fiskveiði og við erum að leggja hér til rýmkun á þeim ákvæðum sem m.a. geta hjálpað upp á þá stöðu sem komið hefur upp við mikinn niðurskurð á þorskkvótanum sem við í Frjálslynda flokknum teljum reyndar að sé ástæðulaus svartsýni. Við teljum að það sé algjörlega ástæðulaust að fara svo hart í niðurskurðinn sem hefur verið ákveðinn af sjávarútvegsráðherra og við höfum fært fyrir því rök í talsverðri umræðu um stjórn fiskveiða sem fór fram fyrir um tveimur vikum síðan en þá lögðum við til í þingsályktun að ársafli af þorski væri aukinn um 40 þús. tonn og færðum fyrir því ýmis málefnaleg rök.

Til viðbótar við þessa skoðun okkar hefur Landssamband smábátaeigenda nýverið haldið þing sitt og þeir lögðu til verulega aukinn þorskafla frá því sem nú er og reyndar fastan þorskafla til þriggja ára meðan menn væru að átta sig á því hvort sú vá væri fyrir dyrum sem spáð hefur verið og menn hafa óttast. Þeir færðu fyrir því rök í málflutningi sínum, mjög málefnaleg og vel unnin rök, m.a. upp úr skýrslum Hafrannsóknastofnunar, um það að ástand okkar aðalfiskstofns, þorsksins, væri ekki eins afleitt og Hafrannsóknastofnun spáir fyrir um.

Ég ætla ekki að fara að endurtaka öll þau rök sem ég fór yfir í umræðunni um daginn en bendi á að ein veigamestu rökin fyrir skyndilokun veiðisvæða er mikil þorskgengd af smáfiski, en Hafrannsóknastofnun lagði til alla sína takmörkun m.a. vegna þess að afar lélegir þorskárgangar væru að vaxa upp. Á þessu ári stefnir hins vegar í að það verði met í því að loka veiðisvæðum vegna smáþorsks. Ég hef náttúrlega haldið því fram eins og hver annar leikmaður að það sé eiginlega ekki nokkur leið að loka veiðisvæðum vegna mikils smáþorsks, hæstv. forseti, nema hann sé til í sjónum því að reglan er sú að menn miða við 25% af þeim fjölda sem veiddur er undir 55 sm og til þess að fá þá tölu þurfi menn að handleika fisk sem er undir 55 sm stærð og meira en 25% af fjölda þess sem kemur í veiðarfæri og menn loka þá svæðinu í 14 daga út af því, þá er það vegna þess að sá fiskur er til en ekki vegna þess að hann sé ekki til, eins og segir í skýrslu Hafró.

Þegar Hafrannsóknastofnun heldur því fram að allir árgangar núna séu lélegir og undir 113–115 milljónum nýliða þá ætti ekki að vera jafnmikið um skyndilokun á þessu ári og reyndin er, því að síðast þegar skyndilokanir fóru á einu ári mest í 97 skipti voru árgangarnir þrír að meðaltali í stofni með 170 milljónir þriggja ára nýliða en það var á árinu 2002/2003.

Hins vegar þegar hvað minnst hefur verið að vaxa upp af þorski hafa skyndilokanir hvers árs farið einu sinni niður í átta og þá voru fiskimenn hræddir. Fiskimönnum stóð ekki á sama það ár þegar skyndilokanir voru aðeins átta vegna smáþorsks, þá voru þeir smeykir um að nú væri lítið að vaxa upp. Einu sinni voru þær 16, einu sinn voru þær 21. Þá fannst mönnum ekki mikið um uppvaxandi árganga. En nánast öllum fiskimönnum sem maður hittir í dag finnst ástandið vera öðruvísi en Hafrannsóknastofnun segir til um og skyndilokanirnar sýna það auðvitað. Það er ekki hægt að loka á fisk samkvæmt þessari reglu nema handfjatla hann og telja hann, hann kemur þá í veiðarfæri.

Þetta vildi ég segja, hæstv. forseti. Þetta mál er takmarkað við eitt veiðarfæri, handfærin, takmarkað við tvo menn mest í áhöfn, takmarkað við eiganda skips, takmarkað við tímabil frá 1. apríl til 1. október, takmarkað við öll þau atriði sem þarf til að skip sé haffært og megi gera það út, þannig að takmörkunin í því er mikil. Ef við berum saman atvinnuleyfi á leigubíl og smábáts mundi þetta sennilega jafngilda því að flestöllum leigubílstjórum væri skylt að aka á „kádilják“, svo stífar eru þessar kröfur, hæstv. forseti.