135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

stjórn fiskveiða.

25. mál
[19:44]
Hlusta

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Hér á árum áður hefði þurft að segja manni það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að sá tími kæmi, og það eru ekki ýkja mörg ár síðan, á Íslandi að hver sem er sem hefði til þess heilsu, vilja og getu að róa til fiskjar á trillu sinni gæti það ekki. Það er hins vegar því miður sá veruleiki sem blasir við okkur í dag, og því miður blasir enn alvarlegri veruleiki við öllum landsmönnum með nýlegum tíðindum af niðurskurði aflaheimilda í þorski.

Ég skrifaði grein í aðdraganda síðustu kosninga, sennilega einum og hálfum mánuði fyrir kosningar, sem hét: Þegar miðin eru dauð . Sú grein byggðist að hluta til á lestri mínum um reynslu manna við Nýfundnaland og svo aftur á nýlegum túr á sjó, endurnýjuðum kynnum af sjómennskunni eftir 11 ára hlé. Ég reri með Heimaeynni í desember síðastliðnum og fékk mjög sterklega á tilfinninguna að aflasamsetning væri allt önnur en sú sem ég hafði átt að venjast, að fiskurinn væri minni, og það sótti að mér beygur.

Þegar reynsla Nýfundnalands í þessum efnum er skoðuð kemur í ljós að smátt og smátt minnkaði það heildarmagn af þorski sem mátti veiða með nokkuð jöfnum hætti en ekki stórkostlegum þar til hann hrundi skyndilega árið 1991, ef ég man rétt. Menn neyddust þá til þess að skera hámarksaflann niður í 30 þús. tonn, held ég, gott ef ekki úr 130 þús. tonnum. Það er reynsla manna mjög víða í heiminum, þar sem sambærileg tíðindi úr lífríkinu hafa átt sér stað, að hrun tegundar verður mjög skyndilega með þessum hætti.

Grein mín var hugsanlega það sem kalla mætti fiskifræði afleysingarsjómannsins en ég hef ekki neinar forsendur til að draga í efa niðurstöður vísindamanna í þessum efnum. Ég var reyndar svo óheppinn á vormánuðum, skal viðurkennt hér, að á sama tíma og grein mín um þessi mál birtist í Morgunblaðinu var landburður af þorski í mörgum höfnum landsins, aðallega suður með sjó.

Hið stóra verkefni sem blasir við almenningi á Íslandi er hins vegar að bregðast við þeim mögulegu tíðindum — ég segi mögulegu, vegna þess að ég vil ekki vera með neina dómsdagsspá hér — að verulegar takmarkanir á veiðiheimildum í þorski sé viðvarandi ástand. Á fundi efnahags- og skattanefndar í vikunni, sem ég sat, var fjallað um þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Þar kom fram að spáð er atvinnuleysi upp á 3% á næsta ári og hálft prósent af því verður vegna niðurskurðar á aflaheimildum.

Stóra verkefnið er að huga að framtíðaratvinnuvegum þjóðarinnar. Það er risavaxið verkefni. Það er ánægjulegt að segja frá því, frú forseti, að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir úttekt á kvótakerfinu og afleiðingum þess og áhrifum á þróun byggða. Ég held að einsýnt sé að þegar sú úttekt hefur verið gerð verði allt undir í skoðun á því kerfi sem við höfum búið við nú til fjölda ára. Þetta er leið til þess að sníða agnúa af kerfinu, skoða hluti sem ég tel vel koma til greina, eins og aðskilnað veiða og vinnslu og að fá allan fisk á markað. Þá hugsanlega, og jafnvel mjög sennilega, blasir við okkur sú staðreynd að við þurfum að færa okkur meira inn á krókaveiðarnar þannig að stærra hlutfall heildaraflans sé veitt með þeim hætti. Það getur verið mjög þýðingarmikið fyrir byggðirnar í landinu, sem fara illa út úr þessum niðurskurði, og ekki síst þýðingarmikið fyrir lífríki sjávar. Mér þykir sá tími sem lagt er til að þetta verði prófað nokkuð langur, heil fimm ár. Það er dálítið langur reynslutími.

En þó ég sé í grundvallaratriðum sammála þeirri meginhugsun sem birtist í frumvarpinu, og mundi gjarnan vilja að hver Íslendingur hefði þennan rétt, tel ég mjög mikilvægt, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin í íslenskum sjávarútvegi, að þetta mál verði tekið til skoðunar á sama tíma og menn fara í ítarlega skoðun á afleiðingum kvótakerfisins og áhrifum þess á þróun byggðar í landinu.