135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

stjórn fiskveiða.

25. mál
[20:05]
Hlusta

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem nú aðallega upp til að fullvissa mig um að mér hafi misheyrst hér einhver svakalegasta samsæriskenning síðari tíma úr ræðustól hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, að tekin hafi verið ákvörðun um að skera niður þorskkvótann næstu 10 árin til þess að fylla 20 þúsund íbúðir sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. (GAK: … bönkunum við.) Er það ákvörðun sem bankarnir koma á framfæri við ríkisstjórnina, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, og báðu hana um að taka fyrir sig? Eða er þetta kenning Frjálslynda flokksins í þessum sal að það séu í raun og veru bankarnir sem stjórna í landinu? (Gripið fram í.) Nú erum við komin út á mjög undarlegar brautir í umræðunni.

Er það virkilega meining hv. þingmanns að Einar K. Guðfinnsson hafi tekið þessa ákvörðun með það í huga að fylla 20 þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu? Var þessi ákvörðun tekin á ríkisstjórnarfundi af landsbyggðarráðherrunum, Björgvini G. Sigurðssyni, Árna M. Mathiesen, Kristjáni Möller og þeim sem koma af landsbyggðinni, að fylla 20 þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu? Maður hlýtur að biðja um frekari skýringar á þessari samsæriskenningu og hvaðan hún er komin.