135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

stjórn fiskveiða.

25. mál
[20:25]
Hlusta

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók þátt í þessari umræðu til þess að lýsa þeirri skoðun minni að ég væri í meginatriðum sammála þeirri hugsun sem væri í frumvarpinu. Ég hef lengi verið á móti núverandi kvótakerfi og er enn þeirrar skoðunar og tel mjög jákvætt að taka eigi það til skoðunar á þessu kjörtímabili.

Nú líður mér hins vegar eins og Auðunn Blöndal, sjónvarpsmaðurinn í þáttunum „Tekinn“, hljóti að fara að birtast í salnum og segja mér að þetta sé einhvers konar brandari á minn part. Samkvæmt því sem hér hefur verið haldið fram tóku hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra ákvörðun um að draga úr aflaheimildum í þorski, og ætla að gera það næstu tíu árin, til að hægt sé að fylla 20 þús. íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ekki málefnaleg umræða, þetta eru sjónarmið rökþrota manna. Er skoðun þeirra á þessu máli byggð á sömu forsendum og skoðun þeirra á þessari samsæriskenningu, einhverju sem þeir geta ekki sannað, einhverju sem þeir hafa heyrt, sem einhver hefur sagt við þá? Eins og ég sagði í ræðu minni áðan hef ég ekki forsendur til þess að vefengja niðurstöður vísindamanna í þessum efnum. Ég held að okkur sé ekki stætt á öðru, það sé of mikið í húfi, en að taka mark á viðvörunarorðum þeirra. Það er ekkert óeðlilegt við það, þegar höfð eru í huga þau vísindi sem um ræðir, að vísindamenn geti ekki horft í augun á hv. þm. Atla Gíslasyni og sagt að þetta lagi ástandið. Það getur enginn.