135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

lyfjalög.

37. mál
[20:57]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga er varðar heimild til að selja nikótínlyf, sem eru ekki lyfseðilsskyld, á þeim stöðum sem hafa leyfi til að selja tóbak.

Ég tel mjög brýnt að þetta frumvarp nái fram að ganga, og mikilvægt fyrir þá sem þurfa á þessari úrlausn að halda. Með því verður aðgengi reykingamanna að þessum lyfjum stórbætt frá því sem nú er og ætti því mun frekar að verða til þess að hjálpa fólki sem glímir við þann vanda sem fylgir því að vilja hætta að reykja. Eins og sölu þessara lyfja er háttað í dag er aðgengi fólks afar misjafnt. Það er mjög fátítt að lyfjaverslanir séu opnar allan sólarhringinn, það er þó helst hér á höfuðborgarsvæðinu. Því er ljóst að með samþykkt frumvarpsins yrði aðgengi bætt verulega. Nikótínfíknin gerir vart við sig á öllum tímum sólarhringsins.

Ef við lítum til landsbyggðarinnar býr fólk þar oft við þær aðstæður að um töluverðar vegalengdir getur verið að ræða í næstu lyfjaverslun. Aftur á móti er mjög líklegt að verslun sem selur tóbak sé einmitt í næsta nágrenni. Ég held að breytingar eins og fjallað er um í þessu frumvarpi séu mjög jákvæðar, og góður stuðningur við reykingafólk um land allt sem stendur í þeirri baráttu að vilja losa sig við tóbakið.

Nú hafa tekið gildi lög sem banna reykingar á veitingahúsum. Þeim lögum þarf að fylgja eftir með því að heimila veitingahúsum — eins og frumvarpið gerir ráð fyrir — að geta boðið reykingafólki þá valkosti sem hér er fjallað um, úrræði til að vinna á fíkn sinni. Það er nokkuð ljóst að það reynist mörgum afar erfitt að takast á við nikótínfíknina. Oft verður að koma til öll sú aðstoð sem völ er á. Því er mjög mikilvægt að mínu mati að gera reykingafólki það eins auðvelt og mögulegt er, eða a.m.k. að það verði jafnauðvelt að nálgast nikótínlyfin, sem eru ekki lyfseðilsskyld, eins og tóbakið sjálft.

Ég trúi því að þingmenn sjái sér fært að styðja þetta góða mál, styðja með því þá sem ákveða að snúa baki við reykingum og minnka þannig líkur á sjúkdómum sem tengjast reykingum síðar á ævinni. Sjúkdómar tengdir reykingum og tóbaksfíkn eru stórt heilbrigðisvandamál í heiminum eins og allir vita.

Nái þetta frumvarp sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hefur mælt fyrir fram að ganga er vissulega hægt að taka undir að það er mikilvægt skref í tóbaksvörnum.