135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[10:55]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við ræddum þetta mál lengi og vel hérna í gær eins og þeir þingmenn sem þar voru viðstaddir þekkja. Ég vil í þessari atkvæðaskýringu taka fram að ég tel, og meiri hluti nefndarinnar, gagnrýnisvert að þetta mál hafi ekki komið fyrr inn til viðskiptaráðuneytisins. Eðlilegra hefði verið ef þetta mál hefði verið lagt fram á sumarþinginu og hlotið þar hefðbundna þinglega meðferð. Sá valkostur var einfaldlega ekki fyrir hendi eins og hv. þingmenn sem tóku þátt í umræðunni í gær og þeir þingmenn sem eru í viðskiptanefnd vita.

Ég vil árétta mikilvægi þess að gætilega sé farið með heimild 28. gr. stjórnarskrárinnar til setningar bráðabirgðalaga en ég tel hins vegar, og meiri hluti viðskiptanefndar, að það hafi engu að síður verið mjög brýnt að koma mannvirkjum á varnarsvæðinu í notkun. Ég legg jafnframt áherslu á að raflögnunum og rafföngunum þar verði komið í viðunandi horf sem allra fyrst. Eins og þingmenn vita gengur það verk mjög vel þannig að ég tel að hér hafi bæði verið mjög brýn nauðsyn að setja bráðabirgðalögin í sumar og sömuleiðis sé brýn nauðsyn á því að við staðfestum þessi lög hér í dag.